Portúgal
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
|
|||||
Kjörorð: Þjóðinni til heilla (Pelo bem da Nação) | |||||
Þjóðsöngur: A Portugesa | |||||
Höfuðborg | Lissabon | ||||
Opinbert tungumál | portúgalska | ||||
Stjórnarfar
Forseti
forsætisráðherra |
Þingræði Aníbal Cavaco Silva José Sócrates |
||||
Aðild að Evrópusambandinu | 1. janúar 1986 | ||||
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
109. sæti 93.391 km² 0,5 |
||||
Mannfjöldi • Samtals (2006) • Þéttleiki byggðar |
75. sæti 10.605.870 114/km² |
||||
VLF (KMJ) • Samtals • á mann |
áætl. 2005 203,4 millj. dala (41. sæti) 19.335 dalir (37. sæti) |
||||
Gjaldmiðill | Evra € | ||||
Tímabelti | UTC +0 (UTC +1 á sumrin) | ||||
Þjóðarlén | .pt | ||||
Landsnúmer | 351 |
Lýðveldið Portúgal er land í Suðvestur-Evrópu á vesturströnd Íberíuskagans. Portúgal á landamæri að Spáni og strönd þess liggur að Atlantshafi. Nokkrir eyjaklasar á Atlantshafi tilheyra einnig Portúgal, þeirra stærstir eru Azoreyjar og Madeira.
Sumir telja nafn landsins koma úr latínu, Portus Cale, sem þýðir falleg höfn en aðrir telja það koma frá aröbum, sem eitt sinn réðu landinu. Samkvæmt því er upphaflegt heiti landsins Portugalia, sem einfaldlega þýðir appelsína.
Á 15. og 16. öld var Portúgal efnahagslegt, stjórnmálalegt og menningarlegt stórveldi þegar yfirráðasvæði þess teygði sig um allan heiminn. Veldi þessu hnignaði hins vegar nokkuð hratt eftir að önnur nýlenduveldi komu til sögunnar.
Portúgal dagsins í dag á rætur sínar að rekja til byltingar árið 1974, þegar einræðisstjórn landsins var steypt af stóli. Frá því landið gekk í Evrópubandalagið (nú Evrópusambandið) árið 1986 hafa framfarir í landinu verið miklar, þrátt fyrir að það sé enn annað tveggja fátækustu landa í Vestur-Evrópu.
Efnisyfirlit |
[breyta] Saga landsins
[breyta] Lúsitanía
Um þúsund árum fyrir Krist gerðu Keltar innrás í Portúgal frá Mið-Evrópu og blönduðust þeim sem fyrir voru í landinu, Íberum. Grískir landkönnuðir nefndu landið „Ofiussa“ (gríska fyrir „land naðranna“), sennilega þar sem innfæddir tilbáðu nöðrur. Árið 238 f.Kr. réðu Karþagómenn yfir Íberíuströndinni. Eftir það réðu nokkrir ættbálkar yfir svæðinu, þeirra helstir Lúsitaníumenn, sem bjuggu á milli ánna Douro og Tagus, og Kalaicianir, sem lifðu norður af ánni Douro ásamt öðrum ættbálkum. Fönikíumenn stofnuðu einnig nýlenduna Conii í suðurhluta landsins og síðar námu Keltar land í Alentejo-svæðinu í suðurhluta landsins.
Árið 219 f.Kr. réðust fyrstu rómversku hersveitirnar inn á Íberíuskagann og hröktu Karþagómenn burtu í púnversku stríðunum. Innan 200 ára höfðu Rómverjar svo náð yfirráðum yfir mestum hluta skagans.
Rómverjar treystu vald sitt yfir landinu næstu áratugina með stuðningi manna í Conii. Árið 194 f.Kr. hófst hins vegar uppreisn í norðurhluta landsins þar sem Lúsitaníumenn og aðrir ættbálkar héldu aftur af Rómverjum, náðu af þeim landi og réðust inn í höfuðborg Conii til að hefna fyrir stuðning þeirra við Róm. Viriathus, sem sagður er hafa fæðst í fjöllum Lorica (Loriga) í miðhluta landsins, hrakti svo Rómverja á brott úr landinu. Róm sendi margar herdeildir til að kljást við uppreisnaröflin og koma aftur á stjórn en tókst það ekki fyrr en þeir náðu að telja Lúsitaníumenn á að drepa sinn eigin leiðtoga. Lúsitaníu óx hins vegar ásmegin og margar af þeim borgum Portúgals sem stofnaðar voru á þessum tíma standa enn. Árið 73 e.Kr. hlaut Lúsitanía stöðu rómversks héraðs.
Á fimmtu öldinni gerðu germanskir þjóðflokkar, barbarar, innrás á Íberíuskagann. Einn af þeim, Suevi þjóðflokkurinn, lagði hins vegar niður vopn og stofnaði konungsríki, með Bracara Augusta sem höfuðborg, á svæði sem svarar nokkurn veginn til Portúgals í dag. Síðar náðu Vísigotar yfirráðum yfir þessu konungsríki og sameinuðu skagann.
[breyta] Konungsdæmið
Árið 711 réðust márar inn á skagann og gerðu þar með út um konungsríki vísigota. Margir fyrirmenn í röðum vísigota flúðu til hálendis Asturias-héraðs (þar sem nú er Spánn) þaðan sem þeir ráðgerðu að endurheimta landið úr höndum mára.
Árið 868 náði Vímara Peres greifi yfirráðum á landsvæðinu milli Minho og Douro ánna (þar á meðal yfir þeirri borg sem varð fyrsta höfuðborg landsins, Portucale - þar sem í dag er borgin Porto). Landið varð þar með þekkt sem Portucale (þ.e. Portúgal).
Portúgalar líta svo á að þeir hafi öðlast sjálfstæði þann 24. júní 1128, í São Mamede bardaganum þar sem her Afonso I barðist við her móður sinnar og elskhuga hennar. Her Afonso vann bardagann og Afonso titlaði sig ‚Prinsinn af Portúgal‘. Þann 5. október 1143 var Portúgal svo formlega viðurkennt sem land. Afonso hóf fljótlega sókn suður á bóginn með það að markmiði að vinna landið úr höndum mára. Það var þó ekki fyrr en árið 1250 sem her Portúgala kom loks að ströndinni í Algarve, sem merkti að márar höfðu að lokum verið hraktir burt úr landinu.
Mörg næstu ár átti landið í langvinnum stríðum við Kastillíu og eftir orrustuna við Aljubarrota, sem hefur orðið þekktastur af sjálfstæðisstríðum landsmanna, voru Portúgalar loks lausir við árásir frá austri. Sá sem stjórnaði her Portúgala í þeim bardaga, Jóhann af Aviz, var að honum loknum gerður að konungi landsins.
[breyta] Upphaf og fall heimsveldis
Í lok 14. aldar og í upphafi þeirrar 15. lögðu Portúgalar grunninn að landafundunum sem áttu eftir að gera landið að heimsveldi. Þann 25. júlí 1415 lagði Jóhann konungur I af stað frá landinu og réttum tveimur mánuðum síðar, þann 25. júlí, náðu herir hans að yfirtaka Ceuta í Norður-Afríku, sem þá var auðug viðskiptamiðstöð múslima.
Áratug síðar fundu Portúgalar svo Asóreyjar og Madeira. Henrique landkönnuður (e. Henry the Navigator) safnaði um sig áhugasömum einstaklingum sem, ásamt nýrri siglingatækni, gerðu yfirráð Portúgala á höfunum möguleg.
Árið 1431 sigldi Gil Eanes umhverfis Bojador-höfða, suður af Marokkó og markaði sú ferð upphaf landvinninga portúgala í Afríku. 56 árum síðar sigldi Bartholomeu Dias kringum Góðrarvonarhöfða í þeirri von að komast í kryddvörur indverja. Upphaflega gaf Dias höfðanum nafnið Stormhöfði (p. Cabo da Tormentas) En Jóhann II endurnefndi höfðann (p. Cabo da Boa Esperança) í samræmi við þá bjartsýni sem ríkti eftir að sjóleiðin austur hafði loksins verið opnuð.
Á síðasta áratug aldarinnar könnuðu Pêro de Barcelos og João Fernandes Lavrador Norður-Ameríku, Pêro da Covilhã sigldi til Eþíópíu og Vasco da Gama sigldi til Indlands. Um aldamótin náði svo Álvares Cabral að ströndum Brasilíu, sem átti eftir að verða gimsteinninn í kórónu landsins. 1510 náði Afonso de Albuquerque svo yfirráðum yfir Goa, Damão og Diu á Indlandi, Adem í Persíuflóa og Melaka þar sem nú er Indónesía. Þar með var vöruflutningur frá Indlandi til Portúgals tryggður.
Árið 1581 náði konungur Spánar völdum í Portúgal eftir að konungur landsins, sem ekki skildi eftir sig neinn erfingja að krúnunni, var drepinn í bardaga. Portúgal hélt sínum eigin lögum, nýlendum, stjórn og mynt í samræmi við sáttmála þjóðanna á milli. Eftir að Spánverjar reyndu að minnka völd aðalsins í landinu lýstu Portúgalar hertogann af Bragança réttmætan konung landsins og í kjölfarið áttu þjóðirnar tvær í stríði sem Portúgalar unnu á endanum.
Þrátt fyrir að Portúgalar hefðu þegar misst mikið af heimsyfirráðum sínum þegar kom á miðja 18. öldina í hendur annarra þjóða (sérstaklega Englendinga og Hollendinga) var meginþunginn af falli landsins fólginn í jarðskjálftanum mikla sem reið yfir Lissabon árið 1755 og drap um þriðjung borgarbúa. Tæplega fimmtíu árum síðar hertóku svo herir Napóleons landið. Það var meðan á þeirri hersetu stóð, árið 1809, sem helsta nýlendan, Brasilía, sagði sig frá móðurlandinu. Áfram tókst landsmönnum þó að halda í aðrar nýlendur sínar í Afríku og Asíu.
[breyta] Fyrsta lýðveldið
Árið 1910 risu Portúgalar upp gegn konungsveldinu og stofnuðu það sem síðar varð þekkt sem Fyrsta lýðveldið. Pólitísk ringulreið, stormasamt samband við kaþólsku kirkjuna (sem enn réð miklu í landinu), ömurleg frammistaða portúgalskra hermanna sem sendir voru á vesturvígstöðvarnar í fyrri heimsstyrjöldinni, auk erfiðs efnahags sem enn versnaði þegar heimsstyrjöldin skall á leiddi til þess að fyrsta lýðveldið stóð aðeins í 16 ár. Árið 1926 hafði herinn fengið nóg af því sem hann sá réttilega sem óstjórn og ringulreið í stjórn landsins og reis upp gegn réttkjörnum stjórnvöldum. Í kjölfarið var herforingjastjórn komið á í landinu sem hafði á sér allt yfirbragð fasisma.
[breyta] Einræði
Sjá einnig António de Oliveira Salazar
Árið 1928 var hagfræðiprófessor við háskólann í Coimbra að nafni António de Oliveira Salazar gerður að fjármálaráðherra landsins og var hans helsta verkefni að koma skikki á mjög svo bágan efnahaginn sem lamaði líf flestra landsmanna. Eftir að hafa tekist það með miklum ágætum var Salazar gerður að forsætisráðherra landsins árið 1932 og ári síðar stigu stjórnvöld nokkur skref sem gerðu landið að hreinu einræðisríki. Einræðið var þekkt sem Nýja ríkið (por. Estado Novo) þar sem – þrátt fyrir bakgrunn forsætisráðherrans – stjórnvöld fjárfestu ekki í menntun landsmanna og stéttaskipting var mikil.
[breyta] Fall einveldisins
Það sem hafði mest áhrif á það að einveldið féll voru styrjaldir portúgala í fyrrum nýlendum sínum í Afríku. Á 6. áratug 20.aldar risu frelsishreyfingar upp í Angóla, Gínea-Bissá og Mosambík með það að markmiði að steypa portúgölskum stjórnvöldum þessara landa og öðlast sjálfstæði.
Herforingjastjórn Portúgals brást ókvæða við þessum hreyfingum og reyndi strax að bæla þær niður með hervaldi. Forsætisráðherra Portúgal, Salazar, lýsti því meðal annar yfir í ræðu og riti að löndin væru og yrðu um alla ævi „órjúfanlegur hluti af móðurlandinu“. Að vissu leyti var afstaða Portúgala skiljanleg. Efnahagur landsins valt að miklu leyti á afurðum frá afríkulöndunum og mörg hundruð þúsund Portúgalar bjuggu í löndunum. Það að missa nýlendurnar var því ávísun á það að þegar bágur heimahagur hins svokallaða móðurlands hryndi.
Portúgölum tókst þó ekki að bæla uppreisnirnar niður og áður en langt um leið þurftu Portúgalar að senda mikinn fjölda viðbótarhermanna til landanna þriggja. Það eru vissulega margar ástæður fyrir því að Portúgölum mistókst að ganga milli bols og höfuðs á uppreisnarmönnum en ein þeirra stærstu er sú að uppreisnarmenn í öllum löndunum þremur nutu stuðnings bæði Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, nokkuð sem ekki var algengt í kalda stríðinu. Markmið stórveldanna beggja var að sjálfsögðu að tryggja sín eigin ítök í löndunum sem voru rík af náttúruauðlindum.
Þrátt fyrir að Salazar fengi heilablóðfall árið 1968 sem lamaði hann þannig að hann gat aldrei tekið þátt í stjórnmálum aftur héldu Portúgalar áfram að berjast í Afríku í heil 6 ár til viðbótar. Endalok baráttunnar komu aðeins eftir uppreisn í Portúgal þann 25. apríl 1974 þar sem herforingjastjórninni var steypt af stóli og vinstri menn komust til valda í landinu. Í Portúgal er sú uppreisn kölluð Nellikubyltingin vegna þess að landsmenn settu nellikur í byssuhlaup hermanna sem óhlýðnuðust þeim fyrirmælum herforingjastjórnarinnar á skjóta á landsmenn til að bæla uppreisnina niður. Í dag er 25. apríl frídagur í landinu.
Fall nýlendanna hafði það hins vegar í för með sér að mörg hundruð þúsund Portúgalar fluttu aftur til Evrópu með tilheyrandi vandamálum. Landið þurfti í mörg ár á eftir á fjárhagsaðstoð að halda til að reyna að samþætta þessa „nýbúa“ sína og hindra það að efnahagur landsins hrundi, en hann var skiljanlega bágur eftir áratuga einræðisstjórn og þá pólitísku og efnahagslegu ringulreið sem ríkti í kjölfarið á falli hennar.
[breyta] Í átt til Evrópu
Portúgalar hafa frá falli einræðisstjórnarinnar verið ákafir talsmenn evrópusamvinnu og gengu í Evrópubandalagið árið 1986. Þrátt fyrir mýmargar tilraunir stjórnvalda á síðustu 30 árum til að koma í gegn efnahagsumbótum í landinu, þar sem sumar hafa tekist og aðrar ekki, er niðurstaðan almennt ekki nógu góð og Portúgal er enn þann dag í dag eitt af fátækustu ríkjum Vestur-Evrópu.
Þrátt fyrir að hafa skilað nánast öllum nýlendum sínum á 8. áratug 20. aldar var það ekki fyrr en um aldamótin sem nánast 500 ára valdatíð Portúgala sem nýlenduherra lauk þegar þeir skiluðu síðustu nýlendunni sinni. Sú var Makaó, lítið landssvæði á suðurströnd Kína sem Kínverjar tóku yfir árið 1999.
[breyta] Landsvæði
Skipting landsins er nokkuð flókin. Því er skipt í 308 sveitarfélög (concelhos) og þeim er svo aftur skipt í yfir 4.000 hreppa (freugesias). Báðir þeir falla svo í yfirflokka sem sumir hafa að gera með stjórnun svæða en aðrir með hlutverk þeirra (s.s. ferðamannasvæði).
Róttækasta skipting landsins var gerð árið 1976, þegar var annars vegar skipt upp í Portúgal meginlandsins og svo í eyjaklasana tvo (Azoreyjar og Madeira), sem með því fengu takmarkaða sjálfsstjórn.
Þéttbýli skiptist í þrjá hluta:
- Stórborgarsvæði (Grandes Áreas Metropolitanas) - Borgir/landsvæði með yfir 350.000 íbúa
- Þéttbýliskjarnar (Comunidades Urbanas) - yfir 150.000 íbúar.
- Oeste, Vale do Sousa, Leiria, Lezíria do Tejo, Baixo Alentejo, Trás-os-Montes, Centro Alentejo, Baixo Tâmega, Douro, Médio Tejo, Beiras, Beira Interior Sul og Alto Alentejo;
- Bæir (Comunidades Intermunicipais) - (undir 150.000 íbúar)
- Pinhal og Vale do Minho.
[breyta] Samgöngur
Á 9. áratug síðustu aldar settu portúgölsk stjórnvöld samgöngumál á oddinn, enda leit hægri stjórn Cavaco Silva svo á að samgöngur væri ein helsta forsenda þess að landið stæði jafnfætis öðrum og ríkari löndum álfunnar. Í dag státar landið af nálægt 70.000 kílómetrum af hraðbrautum þar sem, því miður, er ein hæsta tíðni dauðsfalla í Evrópu af völdum gáleysisaksturs.
Löng strönd landsins gerir hafnir þess sérstaklega mikilvægar fyrir efnahag þess. Helstu hafnirnar eru í Lissabon í landinu miðju, Porto í norðurhlutanum, Setúbal, Sines og Faro í suðurhlutanum og Funchal og Ponto Delgada á eyjum landsins. Margar hafnirnar hafa verið teknar í gegn á síðustu árum, enda flestar illa á sig farnar. Tvær stærstu borgir landsins – Lissabon og Porto – státa af lestarkerfi innan borganna sem hvort um sig er yfir 35 kílómetrar að lengd og kallast þau Metro á portúgölsku. Að auki er mikið lestarkerfi í byggingu sem mun tengja saman þéttbýliskjarnana suður af höfuðborginni. Einnig er lestarkerfi í byggingu fyrir borgina Coimbra.
Hraðlestir tengja svo borgirnar Braga, Porto, Coimbra, Lissabon og Faro saman, og smærri og hægfærari lestir tengja saman margar aðrar borgir landsins. Nýlega kynnti ríkisstjórn landsins áætlun um að minnka enn meira flutningstímann á milli Porto og Lissabon og að tengja einnig saman Lissabon og Madríd á Spáni saman með hraðlest.
Flugvellir landsins voru margir hverjir endurbættir í tengslum við Evrópukeppnina í knattspyrnu sem haldin var í landinu árið 2004. Þannig var Sá Carneiro flugvöllurinn í Porto algerlega endurbyggður og er hann nú sá glæsilegasti í landinu. Flugvöllurinn í Lissabon er þó orðinn úreltur og mun endurbygging hans hefjast árið 2008.
Farsímaeign í Portúgal er með því hæsta sem gerist í heiminum. Sú staðreynd að landið er eitt það þéttbýlasta í Evrópu gerði það einnig að verkum að þriðju kynslóðar farsímakerfið var fyrst tekið í notkun í landinu (ásamt í Þýskalandi) árið 2004. Í dag eru 11 milljón manns áskrifendur að farsímanúmeri, heilli einni milljón meira en íbúafjöldi landsins. Stærstu farsímakerfin eru í eigu Portugal Telecom (PT) og Vodafone.
Af öðrum staðreyndum í samgöngumálum má nefna að brúin sem tengir Lissabon við suðurhluta landsins, Vasco da Gama brúin, er heilir 17 kílómetrar að lengd, sem gerir hana að einni lengstu brú í heimi og þeirri lengstu í Evrópu.
[breyta] Landafræði og loftslag
Á meginlandi Evrópu skiptir Tagus áin (einnig kölluð (Tejo) Portúgal í tvennt. Norðan árinnar einkennist landsvæðið af fjöllum og hálendi sem skipta því í fernt. Suður af Tagus ánni liggur Alentejo svæðið með víðfemum sléttum og mun mildara veðurfari en er í norðurhlutanum. Suður af Alentejo tekur Algarve við og skera fjöll landsvæðin tvö í sundur. Loftslagið í Alentejo á mun fremur skylt við loftslagið í suðurhluta Spánar og Marokkó en öðrum landsvæðum Portúgals. Aðrar helstu ár landsins eru Douro, Minho og Guadiana og eiga þær, ásamt Tagus ánni, það sameiginlegt að eiga upptök sín á Spáni.
Asóreyjarnar og Madeira eru staðsettar á miðjum Atlantshafshryggnum og er eldvirkni þar þó nokkur. Síðast gaus eldfjall á eyjunum árið 1957, en það var Capelinhos eldfjallið á vesturhluta eyjunnar Faial sem jók stærð eyjunnar. Eldfjöll á svæðinu hafa myndað nýjar eyjur og telja sumir jarðfræðingar að ný eyja muni myndast í ekki svo mjög fjarlægri framtíð.
Strönd Portúgals er víðfeðm, eða 943 kílómetrar á meginlandinu, 667 kílómetrar á Asóreyjum og 250 kílómetrar á Madeira. Alls gera það 1860 kílómetra. Portúgal státar af góðum ströndum, sérstaklega í suðurhlutanum, þar sem strendurnar á Algarve eru heimsfrægar. Á eyjunni Porto Santo mynda strandþekjur einnig vinsælar strendur sem ferðamenn sækja í. Ein besta strönd landsins er þó hvorki staðsett í suðurhlutanum né á eyjunum heldur í norðurhlutanum, nokkra kílómetra frá borginni Aveiro. Ströndin er 45 kílómetrar að lengd og allt að 11 kílómetrar að breidd og státar af miklu fiska- og fuglalífi. Mjór höfði myndar þar lón sem margir líta á sem eina mestu sérstöðu í allri og oft mikilfenglegri strönd landsins.
Veðurfar landsins er gott. Meðalhiti á meginlandinu er yfir 13 gráður í norðurhluta landsins og 18 gráður í suðurhlutanum á meðan veðurfarið á eyjum landsins er rakara. Ekki er óalgengt að hitinn á meginlandinu fari yfir 30 gráður í norðurhlutanum yfir sumarmánuðina og yfir 40 gráður í suðurhlutanum. Rigning er algeng á veturna, þó svo sólardagar séu einnig margir. Hitinn á veturna fer sjaldan niður fyrir 5 gráður við ströndina en getur farið niður fyrir frostmark inn til landsins á veturna. Nokkuð algengt er að það snjói í fjöllum landsins, sérstaklega í Serra da Estrela (ísl. „landsvæði stjarnanna“).
[breyta] Menntakerfi landsins
Menntakerfi landsins er skipt niður í forskóla (Pré-Escolar) fyrir börn undir 6 ára aldri, Grunnskóla (Ensino Básico), sem samanstendur af þremur stigum sem samtals telja 9 ár, framhaldsskóla (Ensino Secundário) sem tekur þrjú ár og háskóla (Faculdades) og tækniskóla (Ensino Superior). Menntun er ókeypis og 9 ára skólaganga er skylda í landinu. Frumvarp hefur verið lagt fram í Portúgalska þinginu um að börn verði að ganga í skóla þar til þau nái fullorðinsaldri (18 ára aldri). 6,7% þjóðarinnar er ólæs, nær eingöngu eldra fólk.
Fyrsti háskóli Portúgals — O Estudo Geral (Í dag Háskólinn í Coimbra) — var stofnaður þann 1. mars 1290 í Lissabon samkvæmt tilskipun frá Dinis konungi og er næstelsti háskóli í Evrópu. Háskólinn var fluttur til Coimbra árið 1308, og fluttist svo nokkrum sinnum aftur á milli borganna tveggja allt til ársins 1537. Árið 1559 var Háskólinn í Évora stofnaður af Henrique kardinála sem síðar átti eftir að verða konungur Portúgals og laut skólinn stjórnar jesúíta. Á 18. öld lokaði Marquês de Pombal háskólanum í Évora í tilraun til að minnka völd jesúíta í landinu. Á 19. öld voru mýmargir skólar stofnaðir, t.a.m. Tækniskólinn (Escola Politécnica) og Iðnskólinn (Escola Industral), báðir staðsettir í Lissabon.
Þegar lýðveldi skaut rótum í landinu voru margir þessara skóla innlimaðir í Háskólann í Lissabon og Háskólann í Portó. Á 6. áratuginum var Kaþólski háskólinn stofnaður, og var hann fyrsti skólinn sem ekki var rekinn af portúgalska ríkinu.
Mesta fjölgun háskóla varð þó á 7. áratugi 20. aldar þegar skólar líkt og Háskólinn í Aveiro og Háskólinn í Minho voru stofnaðir, ásamt mörgum einkaskólum.
Í dag hefur miðjustjórn Jose Socrates sett menntamálin á oddinn. Meiri peningum er varið til málaflokksins og ríkisstjórnin hefur gefið það út að allir í landinu skuli læra ensku. Þetta hefur mælst vel fyrir hjá landsmönnum þó svo að áhrif þessa eigi að sjálfsögðu enn eftir að koma fullkomlega í ljós.
[breyta] Trú
Meirihluti Portúgala (eða um 84% þjóðarinnar) er kaþólskur. Þrátt fyrir þetta sýndi rannsókn, sem unnin var af kaþólsku kirkjunni 2001, að einungis 18,7% landsmanna sækti reglulega kirkju. Nokkur hópur mótmælenda er í landinu og er flestir þeirra innflytjendur frá Brasilíu. Smáir hópar múslíma, gyðinga og hindúa er einnig í landinu, flestir þeirra fyrsta kynslóð innflytjenda.
Portúgalska stjórnarskráin tryggir trúfrelsi í landinu, en þó er samkomulag um að gera kaþólsku kirkjunni hærra undir höfði en öðrum trúarhópum. Algengt er að fulltrúar kaþólsku kirkjunnar séu viðstaddir opinberar athafnir og blessi þá sem þær sækja eða haldi jafnvel stuttar messur.
Þrátt fyrir að taka trú sína alvarlega (fremur þó í orði en á borði) eru Portúgalar ekki þekktir fyrir að blanda saman trú- og stjórnmálum, líkt og sást árið 1995 þegar þeir kusu sér Jorge Sampaio sem forseta, en hann aðhylltist ekki kaþólska trú.
[breyta] Tungumál
Portúgalska er opinbert tungumál landsins en hún að rætur sínar að rekja til latínu. Annað tungumál landsins er Mirandês, sem talað er af um 15.000 íbúum í norðurhluta landsins. Portúgalska stafrófið samanstendur af öllum stöfum latneska stafrófsins, nema K og Y sem sagt A, B, C, D, E, F, G, H, I, J, L, M, N, O, P, Q, R, S, T, U, V, X, Z.
[breyta] Portúgölsk stjórnvöld
Stjórnvöld landsins samanstanda af forseta lýðveldisins, þinginu, ráðherrum (ríkisstjórninni) og dómskerfinu.
Forseti landsins, sem jafnframt er yfirmaður hers landsins, er kosinn til fimm ára í senn af þjóðinni. Völd forsetans felast í skipun forsætisráðherra, sem jafnframt er kosinn af þinginu, sem og annarra ráðherra, sem tilnefndir eru af forsætisráðherranum. Forsetinn getur leyst upp ríkisstjórnina, líkt og gerðist í upphafi ársins 2005, sem og þingið. Þessi völd eru þó háð takmörkunum þar sem forsetinn verður fyrst að ráðfæra sig við ríkisráðið sem samanstendur af sex fyrrum forsetum lýðveldisins og tíu borgurum, fimm sem forsetinn tilnefnir og fimm sem tilnefndir eru af þinginu. Algengast er að forsetinn beiti valdi sínu þegar hann samþykkir eða hafnar löggjöfum þingsins.
Þingið (Assembleia da República á portúgölsku) starfar í einni málstofu og samanstendur af 230 þingmönnum sem þjóna til fjögurra ára í senn. Hlutverk þingsins er að setja lög í landinu og forseti þess er handhafi forsetavalds að forsetanum fjarverandi.
Forsætisráðherra landsins fer fyrir ríkisstjórninni og tilnefnir ráðherra. Þegar ný ríkisstjórn er kjörin hefur hún þær skyldur að útlista stefnu sína í stórum dráttum og leggja hana fyrir þingið. Ef meirihluti þingsins hafnar ekki stefnu forsætisráðherrans telst þingið hafa staðfest ríkisstjórnina.
Dómstólar landsins starfa á nokkrum stigum, þar sem hæstiréttur fer með æðsta dómsvald.
Tveir stjórnmálaflokkar eru ráðandi í landinu, sósíalistaflokkurinn PS (Partido Socialista) og sósíaldemókratar PSD (Partido Social Democrata, sem báðir fylgja sömu stefnu í grunninn. Báðir flokkarnir styðja nána samvinnu evrópulanda og leggja mikla áherslu á frjálsan markað og félagslega þætti. Aðrir flokkar sem eiga sæti á þingi eru: kommúnistar PCP (Partido Comunista Português), alþýðuflokkurinn PP (Partido Popular), vinstriflokkurinn BE (Bloco de Esquerda) og umhverfissinnar PEV (Partido Ecologista Os Verdes). Allir eru þeir vinstri flokkar utan alþýðuflokkinn, PP. Árið 2005 vann sósíalistaflokkurinn stórsigur í kosningum og hefur hreinan meirihluta á þingi (121 þingsæti). Forsætisráðherra landsins er José Sócrates.
Portúgalskur almenningur er afar hallur undir Evrópusambandið og samstarf Evrópuþjóða, en 60% landsmanna segjast styðja sambandið.
Trú er sterk í landinu sem sést einna best á því að lög gegn fóstureyðingum eru ströng og fóstureyðingar aðeins leyfðar ef um nauðgun er að ræða eða þar sem líf móðurinnar kann að vera í hættu. Árið 1998 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um málið, þar sem 49% þjóðarinnar vildi leyfa fóstureyðingar og 51% var á móti. Allar líkur eru á því að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin árið 2006. Samkynhneigðir njóta nú aukinna réttinda en aðeins eftir tilskipun frá Evrópusambandinu þar um.
[breyta] Menning landsins
Menning Portúgals er undir áhrifum af þeim mörgu straumum og stefnum sem landið hefur orðið fyrir á síðustu 1000 árum, ekki hvað síst frá nýlendum sínum.
Þetta sést hvað best í þeim mörgu hátíðum sem eiga rætur sínar að rekja til heiðinna siða og rómverja en sem hafa þróast yfir í hátíðir til heiðurs kristnum dýrlingum.
[breyta] Portúgölsk tónlist
Portúgölsk tónlist er samsuða margra strauma. Þekktasta form hennar er án efa Fado, þunglyndisleg og tregablandin tónlistarstefna sem óx og dafnaði bæði meðal lægri stétta landsins sem og í háskólasamfélagi þess. Það orð sem best lýsir tónlistinni er portúgalska orðið saudade. Orðinu saudade (sem helst væri þýtt með hryggð) er ætlað að lýsa þeirri sammannlegri tilfinningu sem felst í því að vera ástfanginn af einhverjum eða einhverju sem maður er fjarri. Þrátt fyrir að stefnan teljist portúgölsk á hún væntanlega uppruna sinn í afrískum þrælasöngvum ásamt tónlist portúgalskra sjómanna, auk þess sem hún hefur orðið fyrir áhrifum af arabískum söngvum. Fado skiptist í tvær meginstefnur: Þá sem á uppruna sinn í höfuðborginni, Lissabon, og þá sem má rekja til háskólabæjarins Coimbra. Fyrrnefnda stefnan var talin tónlist alþýðunnar og flytjendurnir voru yfirleitt konur, á meðan sú síðari var tók sig alvarlegar, var hástemmdari og yfirleitt flutt af karlmönnum. Frægustu fadosöngvarar landsins eru Amália Rodrigues, Mariza, Ana Moura, Cristina Branco, auk hljómsveitarinnar Madredeus.
Vinsælasta tónlistin í dag er annars popp- og rokktónlist ásamt tónlist sem kallast hipp hopp tuga (sambland hipp hopps, afrískrar tónlistar og reggís) þar sem flytjendurnir eru aðallega af afrískum uppruna, og hins vegar pimba, einföld alþýðutónlist sem aðallega er vinsæl í smábæjum og þorpum landsins.
[breyta] Portúgalskar bókmenntir
Bókmenntir Portúgals hafa þróast frá 13. öld, þegar hljóðfæraleikarar ferðuðust um og fluttu kvæði fyrir þá sem vildu heyra. Dáðasti rithöfundur landsins er sennilega Luís de Camões (1524 – 1580) sem skrifaði söguljóðið Os Lusíadas á ferðum sínum um Afríku og Asíu. Annað vinsælt ljóðskáld er Fernando Pessoa (1888 – 1935) sem skrifaði ljóð undir mörgum dulnefnum þar sem hann spann upp karaktera sem jafnvel rifust sín á milli á prenti. Meðal annarra frægra rithöfunda landsins eru Almeida Garrett, Alexandre Herculano, Eça de Queirós, Sophia de Mello Breyner Andresen, António Lobo Antunes og José Saramago, sem hlaut Bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1998, fyrstur portúgalskra rithöfunda.
[breyta] Portúgölsk byggingarlist
Byggingarlist landsins hefur orðið fyrir miklum utanaðkomandi áhrifum í gegnum aldirnar og því erfitt að staðsetja hana. Ýmsir borgarhlutar, og jafnvel heilu borgirnar (líkt og Sintra) eru á heimsminjaskrá UNESCO. Portúgal státar af einum fremsta arkitektaskóla heims, sem einfaldlega kallast Escola do Porto, eða Portóskólinn.
[breyta] Matarmenning
Hvert landsvæði hefur sína sérrétti sem oftast innihalda kjöt eða fisk. Saltfiskur er sérstaklega vinsæll í landinu (bacalhau á portúgölsku) enda sagt að Portúgalar kunni 365 leiðir til að elda saltfisk. Bacalhau à Brás og Bacalhau à Gomes de Sá eru vinsælustu aðferðirnar. Einnig er mikið um sætindi, sem oftar en ekki eru drukkin með sterku kaffi. Portúgalar hafa einnig þróað sína eigin skyndibitamenningu, Francesinha þar vinsælasti rétturinn (nafnið merkir lítil frönsk stúlka), gerður úr brauði, pylsum, kjöti, osti og sósu sem meðal annars samanstendur af viskíi og bjór.
Portúgölsk vín hafa verið flutt út síðan á dögum Rómverja. Þrátt fyrir að hafa unnið til alþjóðlegra verðlauna er sagt að Portúgalar kunni ekki að markaðsetja vín enda eru þau illfáanleg í mörgum löndum. Helstu vínin eru Vinho Verde (óþroskað hvítvín), Vinho Alvarinho (sérstök gerð hvítvíns) og Vinho do Alentejo (vín frá Alentejo svæðinu, oft talin þau bestu í Portúgal). Portúgal, nánar tiltekið norðurhluta landsins í kringum Porto og ána Douro, er einnig heimsfrægur fyrir púrtvínsgerð, þó svo flestar púrtvínsverksmiðjur landsins séu í eigu Englendinga. Þrátt fyrir að púrtvín (portúgalska: Vinho do Porto) dragi nafn sitt af borginni Portó eru vínin ekki framleidd í þeirri borg heldur í Vila Nova de Gaia, við suðurhluta Douro árinnar.
[breyta] Íþróttir
Fótbolti er langvinsælasta íþrótt landsins, enda hefur landið verið ofarlega á heimslista FIFA undanfarna áratugi. Portúgal hefur alið af sér marga þekkta fótboltamenn í gegnum tíðina og eru þeir helstu Luís Figo, goðsögnin Eusébio, Rui Costa, Pauleta og Cristiano Ronaldo. Luis Figo m.a. var kjörinn knattspyrnumaður Evrópu árið 2001 þegar hann spilaði með Real Madrid. Hjólaskautahokkí er einnig vinsælt, enda Portúgal það land sem hefur unnið flesta titla á því sviði. Golf er einnig mikið stundað í landinu, og þá helst í suðurhlutanum í kringum ferðamannakjarna, sem og blak og strandfótbolti.
[breyta] Gullna kynslóðin
Í lok 9. áratugar síðustu aldar komu fram á sjónarsviðið ungir knattspyrnumenn í Portúgal sem náðu aðdáunarverðum árangri í knattspyrnu með landsliði Portúgala sem skipað var leikmönnum yngri en 21 ára, og sem aflaði þeim viðurnefnisins ‘Gullna kynslóðin’. Þannig vann þetta ungmennalandslið Portúgala tvö heimsmeistaramót í knattspyrnu í röð (árið 1989 og 1991) og hafði m.a. innanborðs knattspyrnumennina Luis Figo og Rui Costa. Líkt og skiljanlegt er voru væntingar Portúgala til þessara knattspyrnumanna sinna miklar þegar þeir tóku út þroska sinn á knattspyrnuvellinum - og að sama skapi urðu vonbrigðin mikil þegar þeim mistókst það keppni eftir keppni. Í sjálfu sér er rangt að segja að niðurstaðan sé engin. Í Evrópukeppninni árið 2000 tapaði landsliðið fyrir Frökkum, sem síðar urðu Evrópumeistarar, og í Evrópukeppninni árið 2004, sem haldin var í Portúgal, tapaði liðið í úrslitaleiknum fyrir Grikkjum, 1 - 0. Þrátt fyrir þessa næstum-því-sigra er niðurstaðan langt í frá sú sem búist var við og í dag er eini leikmaðurinn frá gullna tímabilinu í landsliðinu fyrirliðinn Luis Figo.
[breyta] Ferðamannaþjónusta
Mest sótta ferðamannasvæði Portúgals er héraðið Algarve í suðurhluta landsins og þá sérstaklega Albufeira, sem er vel þekkt meðal margra Íslendinga. Ferðamannastraumurinn til héraðsins var þó óverulegur fram til 6. áratugar síðustu aldar áður en flugvöllurinn í Faro var opnaður. Flestir ferðamenn sem koma til landsins eru frá Bretlandi, Þýskalandi og Skandinavíu.
Næststærsti ferðamannastaður landsins er sjálf höfuðborgin, Lissabon. Flestir sem þangað sækja leita í ofgnótt af sögu borgarinnar sem endurspeglast í þeim aragrúa minnisvarða sem finna má í borginni. Meðal frægustu minnisvarða hennar er Betlehemsturninn og Jeronimo klaustrið.
Porto, önnur stærsta borg landsins, dregur að sér sinn skerf af ferðamönnum. Auk þess að vera mesta púrtvínsborg heims, státar borgin af brú eftir Gustave Eiffel og heilum borgarhluta sem hefur verið settur á Heimsminjaskrá UNESCO.
Meðal annarra svæða landsins sem laða að sér ferðamenn ár hvert eru Asóreyjarnar (með sitt milda loftslag allt árið um kring), Madeira (með miklum og fjölskrúðugum gróðri), Coimbra (þar sem finna má næstelsta háskóla í Evrópu), Braga, Evora og Sintra, þær tvær síðastanefndu - að mismiklum hluta - á heimsminjaskrá UNESCO.
[breyta] Landamæradeilur við Spán
Portúgal á í landamæradeilum við nágranna sinn, Spán, um Olivença svæðið í suðurhluta landsins (Olivenza á spænsku). Árið 1815 samþykktu Spánverjar að skila svæðinu aftur til Portúgala en það hefur ekki verið gert enn þann dag í dag og ítreka Portúgalar reglulega þá kröfu sína að landssvæðinu verði skilað. Síðast var fjallað um málið á portúgalska þinginu árið 2004. Samkvæmt alþjóðalögum telst Olivença til Portúgals, þrátt fyrir að hafa verið undir spænskri stjórn frá árinu 1801.
[breyta] Tenglar
[breyta] Portúgölsk stjórnsýsla
- Assembleia da República - Opinber vefsíða portúgalska þingsins
- Portal do Governo - Vefgátt stjórnsýslunnar
- Presidência da República - Vefsíða forseta landsins
[breyta] Gagnlegar upplýsingar
- 25. apríl 1974 - Skjöl úr byltingunni
- Rannsóknarmiðstöð um stjórnarfar landsins - Saga og stjórnmál
- Ferðir nýlenduveldanna Nýlendustefna hollending og portúgala í asíu
- Portúgölsk dagblöð
- Vefgátt - Upplýsingar fyrir þá sem hyggjast flytjast til landsins
[breyta] Tenglar fyrir ferðamenn
- Velkomin til Portúgals - Allt um landið
- ICN - Vernduð landsvæði í Portúgal
- Myndir af Portúgal
- IPPAR - Minnismerki
- Portugalia - Myndir af Portúgal
- Gagnvirkt kort af landinu - af itmaps.com
- Fyrir ferðamenn Allt um ferðalög í Portúgal
- Visit Portugal - Opinber vefsíða ferðamannaráðs Portúgals
Undir yfirráðum annarra ríkja: Álandseyjar · Færeyjar · Gíbraltar · Guernsey · Jersey · Mön · Svalbarði