Heilög þrenning
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Heilög þrenning, Þrenningin eða Þrenningarkenningin er ein mikilvægasta hugmyndin í hinni kristnu trú samkvæmt flestum kirkjudeildum og felur í sér Föðurinn, Soninn og heilagan anda. Kjarni þessarar kenningar er að Guð er samfélag föður og sonar og heilags anda í einum guðdómi. Kenningin óx fram sem tilraun til að samræma og útskýra frásögur Gamla og Nýja testamentanna um Guð og skapa samræmda mynd af opinberunum Hans.
Þrátt fyrir mikilvægi kenningarinnar fyrir allar helstur kirkjudeildirnar hefur hún valdið miklum deilum guðfræðinga og á þátt í klofningi kirkjudeilda sérlega á fyrstu öldum kristinnar kirkju og nokkrar kirkjur afneita kenningunni.
Efnisyfirlit |
[breyta] Saga
Þrenningarhugtakið sem slíkt er ekki að finna í Biblíunni, hvorki í Gamla eða Nýja testamentinu. Það var kirkjufaðirinn Tertullianus (um 160—225) frá Karþagó sem um ár 200 setti fram grundvallarsetningu þrenningarkenningarinnar: „Guð er einn að eðli og þrjár persónur“. Hugtakið Þrenningin var fyrst notað af Þeophílusi frá Antiokkíu um ár 180 [1] og varð afgerandi við framvöxt kaþólsku kirkjunnar og rétttrúnaðarkirkjunnar, til dæmis í deilunum við aríanista, nestoríana og það sem varð austrænu rétttrúnaðarkirkjurnar. Aríus hélt því fram að „Það var sá tími er sonurinn var ekki“:
- Þess vegna eru þrjár verur (hyopstaser), Faðirinn, Sonurinn og Heilagur andi. Og Guð, sem er upphaf allra hluta, er sá eini án upphafs, en Sonurinn, sem fæddist utan tímans af Föðurnum var ekki áður en hann var fæddur og fékk einungis líf gegnum Föðurinn einan. (haft eftir Aríusi í gagnriti Epiphaniuar frá Salamis [2].
Í Aþanasíusarjátningunni (sem samin var um ár 500) sem sköpuð var gegn Aríusarsinnum segir hins vegar:
- 10 Faðirinn er eilífur, sonurinn er eilífur, heilagur andi er eilífur 11 og samt sem áður eru ekki þrír eilífir, heldur einn eilífur 12 eins og þeir eru ekki þrír óskapaðir og ekki þrír ómælanlegir, heldur einn óskapaður og einn ómælanlegur.
og síðan:
- 21 Sonurinn er ekki gerður og ekki skapaður, heldur fæddur af föðurnum einum. [3]
Þrenningarkenningin skapaðist undir miklum áhrifum frá nýplatonisma ekki síst hugmynda þeirra um heim frummyndanna og hinn skynjanlega heim sem fullkomlega aðskildir.
Þessar deilur urðu aðalmálefnin kirkjuþingsins í Níkeu 325 og Níkeujátningin frá 381 er sett fram einkum til undirstrika mikilvægi þrenningarkenningarinnar.
[breyta] Þrenningarkenningin í Biblíunni
Hvorki hugtakið Heilög þrenning né önnur augljós hugtök sem styðja það er að finna í Biblíunni en guðfræðingar hafa þó fundið fleiri staði sem má nota til að rökstyðja kenninguna.
Í Gamla testamentinu er einkum 1. Mósebók 18 [4] þar sem Guð sýnir sig í formi þriggja manna fyrir Abraham tekin sem vitni um kenninguna. Í Nýja testamentinu er mikilvægasta stuðninginn að finna í Matteusarguðspjallinu 28:19 en einnig í 2. Korintubréf 13:13 [5].
[breyta] Guðdómurinn er einn
Trúin á þrenningarkenninguna er mikilvæg í kaþólskri trú, rétttrúnaðarkirkjunni og flestum söfnuðum mótmælenda. En samtímis er kenningin um að það sé aðeins til einn guð grundvöllur kristinnar trúar. Þessi kenning tengir kristni hinum Abrahamísku trúarbrögðunum, Gyðingdómi og Íslam, eða eins og segir í Jesaja 44:6 „enginn Guð er til nema ég“. Þrenningarkenningin veldur því hins vegar að bæði Gyðingdómur og Íslam álýta kristna vera fjölgyðistrúar eða alla vega jaðra við það.
[breyta] Söfnuðir sem afneita þrenningarkenningunni
Ýmsar kirkjudeildir hafa afneitað þrenningarkenningunni eða dregið hana mjög í efa. Ástæðurnar fyrir því eru margvíslegar og má nefna að hún fylgi ekki eingyðiskenningu Gamla testamentistins og Gyðingdóms, að hún sé einungis tilbúningur kirkjufeðranna og ekki síst að framsetningin á þrenningarkenningunni byggist að miklu leyti á orðaforða sem ekki er að finna í Biblíunni.
Ýmsar kirkjudeildir mótmælenda afneita þrenningarkenningunni. Þekktust er kirkjudeild únitara sem leggja áherslu á einingu Guðs og andmæla guðdómi Jesú Krists og heilags anda og þar með heilagri þrenningu. Einnig má nefna vísindakirkjuna (Christian Science). Kirkjudeildirnar Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og Vottar Jehóva, sem báðar telja sig kristnar þó aðrar kirkjur (þar á meðal Þjóðkirkjan) telji svo ekki vera, afneita báðar þrenningarkenningunni þó af mismunandi ástæðum.
[breyta] Heimildir
- ↑ [1] Theophilus of Antioch, To Autolycus, II.XV
- ↑ Epiphanius IV : Register Zu Den Banden I - III (Ancoratus Panarion Haer. 1 - 80 Und De Fide), ritstjóri Karl Holl, 2007, ISBN 3-11-017904-0
- ↑ [http://www.kirkjan.is/?trumal/kenning/athanasiusarjatningin Aþanasíusarjátningin á vef Þjóðkirkjunnar
- ↑ Biblían, Reykjavík, 1981, ISBN 838253
- ↑ Biblían, Reykjavík, 1981, ISBN 838253
[breyta] Aðrar heimildir og ítarefni
- Þrenningarkenningin á ReligionFacts
- The Blessed Trinity, grein á Catholic Encyclopedia
- Trinity, grein í Jewish Encyclopediaru-sib:Троица