Ilíonskviða
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ilíonskviða er annað tveggja frásagnarkvæða (epískra kvæða) sem eignuð hafa verið blinda kvæðamanninum Hómer. Hitt kvæðið er Ódysseifskviða en saman eru kvæðin kölluð Hómerskviður og eru elsti varðveitti skáldskapur Grikkja.
Efnisyfirlit |
[breyta] Efni Ilíonskviðu
Ilíonskviða gerist á síðasta ári Trójustríðsins en í því börðust Grikkir og Tróverjar. Ilíon er annað nafn yfir borgina Tróju við Hellusund. Í kviðunni kemur upp ósætti á milli Agamemnons konungs, sem fór fyrir liði Grikkja, og kappans Akkillesar. Akkilles sem fór fyrir miklu liði ákveður að berjast ekki sem veldur því að mjög hallar á Grikki í stríðinu við Tróverja. Sendiför er gerð til Akkillesar til að fá hann aftur til orrustu en hann vill alls ekki snúa aftur enda enn reiður Agamemnoni. Þrátt fyrir þetta leyfir Akkilles góðum vini sínum, Patróklosi, að snúa aftur til bardagans og fer hann til orrustu í herklæðum Akkillesar. Er Patróklos mætir til orrustunnar halda viðstaddir að þar sé Akkilles á ferð en Patróklos fer hamrammur um völlinn og snýr bardaganum aftur Grikkjum í vil. Á endanum vegur Hektor, mikil hetja og sonur Príamosar Trójukonungs, Patróklos sem fær Akkilles til að snúa aftur til bardagans gagntekinn af sorg vegna falls vinar síns. Hann berst gegn Hektori, fellir hann og smánar svo líkið marga daga í röð. Príamos konungur fer síðar háskaför til að sækja lík Hektors, sonar síns og lýkur kviðunni á útför hans.
[breyta] Ritun kvæðisins
Enginn veit með vissu hver orti Hómerskviður. Frá fornöld og allt fram á 18. öld voru kvæðin eignuð blinda kvæðamanninum Hómer. Ekki er vitað hvenær hann var uppi né hvar hann hélt sig en allmargar jónískar borgir hafa gert tilkall til þess að vera fæðingarstaður skáldsins. Fræðimenn skeggræða enn í dag spurningar sem upp komu er menn fóru að rannsaka kviðurnar gagnrýnið fyrir u.þ.b. 200 árum og ekki eru menn sammála um hver Hómer hafi verið eða hversu mikið af kviðunum komi frá honum. Aðrir taka enn dýpra í árinni og velta því fyrir sér hvort kvæðin séu eftir sama höfund, hvort þær hafi orðið til hvor í sínu lagi og margir efast jafnvel um tilvist Hómers sjálfs. Margt liggur þannig á huldu um tilurð Hómerskviða. Flestir fræðimenn eru þó á þeirri skoðun að Hómerskviður hafi verið ortar seint á 8. öld f.Kr.
[breyta] Bragarháttur
Hómerskviður eru ortar undir hexametri sem á íslensku hefur verið nefndur sexliðaháttur. Eins og nafnið ber með sér þá má þekkja bragarháttinn á því að í hverri ljóðlínu eru sex bragliðir og samanstendur hver bragliður yfirleitt af einu löngu atkvæði og tveimur stuttum. Hexametur var vinsælt meðal Grikkja en þeir ortu ljóð sín ósjaldan undir hættinum. Rómverjar tóku hexametur síðar upp og t.a.m. skrifaði Virgill Eneasarkviðu sína og Óvidíus Myndbreytingar sínar undir þessum sama hætti.
[breyta] Heimild
Kviður Hómers. II. bindi. 1948. Odysseifskviða. Sveinbjörn Egilsson þýddi. Kristinn Ármannsson og Jón Gíslason bjuggu til prentunar. Reykjavík. Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
[breyta] Tenglar
- Vísindavefurinn: „Hver var Hómer og eru til einhverjar traustar heimildir um hann?“
- Vísindavefurinn: „Um hvað fjalla Hómerskviður?“