Háskólinn í Reykjavík
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Háskólinn í Reykjavík er einkarekinn háskóli í Reykjavík sem útskrifar nemendur úr viðskiptafræði, tölvunarfræði, tæknifræði, verkfræði, kennslufræði og lögfræði og auk þess starfrækir skólinn stjórnendaskóla.
[breyta] Bakhjarl og stjórn
Skólinn er rekinn af Sjálfseignarstofnun Verzlunarráðs Íslands um viðskiptamenntun (SVÍV) og lýtur stjórn sem skipuð er af Verzlunarráði, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins. Í háskólaráði sitja auk rektors fimm einstaklingar úr atvinnulífinu. Háskólaráð ræður rektor en hann skipar svo í stöðu deildarforseta og yfirmanna stoðsviða. Framkvæmdastjórn skólans skipa rektor, deildarforsetar, fjármálastjóri og framkvæmdastjóri Stjórnendaskóla HR.
Háskólinn í Reykjavík gerir hefðbundinn þjónustusamning við menntamálaráðuneytið sem m.a. kveður á um að ríkið greiði tiltekna upphæð fyrir hvern nemanda í skólanum.
[breyta] Sögulegt ágrip
Háskólinn í Reykjavík á rætur að rekja til Tölvuháskóla Verzlunarskóla Íslands (TVÍ) sem stofnaður var í janúar 1988 og starfræktur í húsnæði Verzlunarskóla Íslands um tíu ára skeið. Háskólinn í Reykjavík var settur í fyrsta sinn hinn 4. september 1998 í nýrri byggingu við Ofanleiti 2, undir nafninu Viðskiptaháskólinn í Reykjavík. TVÍ varð önnur tveggja deilda hins nýja háskóla. Í janúar 2000 var ákveðið að breyta nafni skólans í Háskólinn í Reykjavík þar sem gamla nafnið þótti ekki nógu lýsandi fyrir starfsemi skólans. HR og Tækniháskóli Íslands sameinuðust undir merkjum hins fyrrnefnda 4. mars 2005. Nú hefur verið ákveðið að framtíðarstaðsetning skólans verði í Vatnsmýrinni og er gert ráð fyrir að starfsemi hans hefjist þar 2009.
[breyta] Tengill
Íslenskir háskólar |
---|
Háskóli Íslands | Háskólinn á Akureyri | Háskólinn á Bifröst | Háskólinn í Reykjavík | Hólaskóli | Kennaraháskóli Íslands | Landbúnaðarháskóli Íslands | Listaháskóli Íslands |