Ritsími
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ritsími er sími sem getur sent rituð boð langa leið án þess að þurfi að flytja þau sem bréf. Upphaflega var þetta gert með því að mynda merki efst á turni sem sást frá næsta turni sem hermdi eftir og þannig koll af kolli þar til merkið náði til áfangastaðar. Fyrsta heilstæða kerfið sem útfærði þessa hugmynd var sjónritsími Claude Chappe í Frakklandi sem starfaði frá 1792 til 1846. Í upphafi 19. aldar fundu menn upp ritsímasendingar um rafmagnsvír. Fyrsta rafknúna ritsímakerfið sem komst í almenna notkun var ritsímalína meðfram járnbrautarkerfi Great Western Railway í Bretlandi árið 1839. 1837 þróaði Samuel F. B. Morse sams konar kerfi í Bandaríkjunum og aðstoðarmaður hans, Alfred Vail, þróaði Morse-stafrófið.
Síðasta áratug 19. aldar sýndu Nikola Tesla og fleiri fram á kosti loftskeytakerfis (þráðlauss ritsíma). Slík kerfi voru fljótlega tekin í notkun um borð í skipum.
Ritsíminn kom til Íslands með samningi sem Hannes Hafstein gerði við Stóra norræna ritsímafélagið en í honum fólst lagning sæstrengs frá Danmörku. Hópur bænda mótmælti þessum samningi með hópreið til Reykjavíkur, en þeir töldu ráðlegra að taka tilboði frá Marconi-félaginu í London (fyrir milligöngu Einars Benediktssonar) um uppsetningu loftskeytakerfis, enda það tilboð miklu ódýrara en það danska.