Kristín Svíadrottning
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kristín Svíadrottning (8. desember 1626 – 19. apríl 1689) var drottning Svíþjóðar frá láti föður síns Gústafs 2. Adolfs sem féll í orrustu við Lützen, 16. nóvember 1632 þar til hún afsalaði sér embættinu til Karls 10., frænda síns, árið 1654. Hún giftist aldrei, aðhylltist í laumi kaþólska trú og fékk því framgengt að Karl, frændi hennar, var kjörinn eftirmaður hennar af sænska þinginu. Hún flutti til Rómar eftir afsögn sína og lést þar.
[breyta] Æviágrip
Eftir lát föður síns varð Kristín, þá ekki sex ára gömul, drottning undir forsjá móður sinnar Maríu Eleónóru af Brandenburg. Árið 1636 var hún þó tekin af móður sinni, meðal annars vegna deilna milli Maríu og ríkiskanslarans, Axels Oxenstierna sem þá sneri heim frá orrustuvöllunum í Þýskalandi. Oxenstierna tók þá að sér forsjá drottningar þar til hún tók sjálf við stjórnartaumunum við átján ára aldur 1644 og hann var áfram áberandi við völd þar til henni tókst að ýta honum til hliðar og skipa Johan Adler Salvius að ríkisráði árið 1648.
Hún stóð fast gegn tilraunum þingsins til að fá hana til að velja sér mannsefni og fékk því framgengt 1650 að þess í stað var frændi hennar, Karl Gústaf, systursonur Gústafs 2., kjörinn eftirmaður hennar á stéttaþinginu.
Árið 1654 tilkynnti hún þinginu fyrirætlan sína að afsala sér embætti til eftirmanns síns. Strax eftir konungsskiptin, 6. júní sama ár, hélt hún af stað til Þýskalands. Undir árslok 1655 var hún komin til Rómar, þar sem Alexander 7. var nýorðinn páfi. Henni var tekið með kostum og kynjum, og settist að í Villa Farnese, en hún var févana og þegar það varð opinbert, kólnuðu viðtökurnar. Næstu ár ferðaðist hún meðal annars til Frakklands og Þýskalands og einnig til Svíþjóðar, þar sem henni var markvisst gert erfitt fyrir. Árið 1668 flutti hún endanlega til Rómar og lést þar févana og áhrifalaus, en vinsæl meðal menntamanna og ferðamanna í borginni.
Fyrirrennari: Gústaf 2. Adolf |
|
Eftirmaður: Karl 10. Gústaf |