See also ebooksgratis.com: no banners, no cookies, totally FREE.

CLASSICISTRANIERI HOME PAGE - YOUTUBE CHANNEL
Privacy Policy Cookie Policy Terms and Conditions
Hringanóri - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið

Hringanóri

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hringanóri

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Rándýr (Carnivora)
Undirættbálkur: Hreifadýr (Pinnipedia)
Ætt: Selaætt (Phocidae)
Ættkvísl: Selaættkvísl (Phoca)
Tegund: P. hispida
Tvínefni
Phoca hispida
Schreber, 1775

Hringanóri (fræðiheiti: Phoca hispida, á seinustu árum hafi ýmsir dýrafræðingar nefnt ættkvíslina Pusa í stað Phoca), er selur sem er ívið minni en landselur. Þessi selategund lifir allt í kring um Norður-Íshaf og er þar langstærsti selastofninn, en giskað er á að þeir séu á bilinu 3,5 til 6 miljónir. Dýrafræðingar hafa greint sex undirtegundir, þar af tvær sem eingöngu lifa í ósöltu vatni.

Hringanórinn er algengur flækingur við Ísland, sérlega á Norðurlandi. Oftast koma þeir einir eða fáir saman og í flestum tilfellum fullorðnir brimlar.

Efnisyfirlit

[breyta] Einkenni

Lengd hringanóra er á bilinu 120-190 cm og þeir geta orðið allt að 100 kg. Brimillinn er heldur stærri en urtan. Í útliti svipar honum til landsels en er heldur minni, hann hefur einnig hlutfallslega heldur minna höfuð og minni framhreifa. Augun er meira framan á höfði en á öðrum selategundum. Hringanórinn þekkist þó helst á að hann hefur hringlaga flekki á baki með ljósum hringjum í kring og hefur nafn af því.

[breyta] Útbreiðsla og undirtegundir

Útbreiðsla hringanóra
Útbreiðsla hringanóra

Hringanórinn lifir allt í kringum Norður-Íshaf og tengdum höfum og vötnum.

Dýrafræðingar hafa greint hann í sex undirtegundir:

  • Phoca hispida hispida: er langtum stærsti stofninn og lifir við norðurstrendur Noregs og Rússlands, heimskautaeyjar Kanada og við Alaska og Grænland og einnig við Novaya Zemlya og Svalbarða.
  • Phoca hispida krascheninikovi: í norðurhluta Berings hafs.
  • Phoca hispida ochotensis: við Kamtsjakaskaga, í Okhotska hafinu og suður allt að 35°N, meðfram Kyrrahafsströnd Japan. Telur stofninn um 800 000 dýr.
  • Phoca hispida botnica í Eystrasalti, Botníuflóa og Finnlandsflóa. Í upphafi 20. öld var áætlað að stofninn hafi verið um 200 000 dýr en var kominn í 45 000 um 1940 vegna mikillar veiði. Fór selnum hraðfækkandi, ekki síst vegna mengunar, fram yfir 1970 þegar stofninn var kominn niður í 10 000 og lá við að hann dæi út. Fjölgar nú aftur í norðurhluta útbreiðslusvæðisins og eru þar um 5500 dýr.
  • Phoca hispida ladogensis í Ladoga vatninu. Eftir að hafa verið í mikilli útrýmingarhættu er selurinn algjörlega friðaður frá 1980 og er stofninn nú um 2000 dýr.
  • Phoca hispida saimensis lifir eingöngu í Saimaa-vatnasvæðinu í suðaustur Finnlandi og telur einungis um 250 dýr. Hefur verið friðaður frá 1955.

Þar að auki eru tvær aðrar selategundir náskildar hringanóra sem lifa í sitt hvoru vatninu, Bajkal selurinn (Phoca sibirica) og Kaspíski selurinn (Pusa caspica).

[breyta] Æti og lifnaðarhættir

Teikning af tveimur hringanórum frá 1887
Teikning af tveimur hringanórum frá 1887

Hringanórinn er fremur einrænn og safnast aldrei í stóra hópa. Allar tegundir nema h. ladogensis og h. saimensis lifa á og víð hafís allt árið um kring. Hringanórinn hefur mikið lag á að halda opinni vök í ísinn, ekki síst að vetrarlagi, og kemur þar upp til að anda og er eina selategundin sem gerir það. Hann getur haldið vökinni opinni í gegnum þykkt íslag, allt að 2,5 metra á þykkt, með nagi og klóri.

Fæðan er aðallega krabbadýr og ískóð og venjulega veiðir hringanórinn ekki stærri en 20 cm langa fiska. Selurinn kafar oftast einungis í tvær til fimm mínútur en getur verið í kafi upp undir 20 mínútur en hann neyðist til þess.

Í mars kæpir urtan í snjóhúsi eða snjóhelli sem hún grefur við op í gegnum ísin. Kóparnir fæðast með hvít fósturhár og eru um 65 cm á lengd og vega um 4,5 kg við fæðingu. Þeir eru á spena í 6 til 8 vikur og eru þá orðnir 9 til 12 kg á þyngd.

Ísbirnir eru aðalóvinirnir, fyrir utan veiðimenn, en heimskautarefir eru einnig stór hætta fyrir kópana.

[breyta] Veiði og nyt

Hringanóri hefur verið afar mikilvægur þáttur í lífi Inuíta allt fram á þennan dag. Á sumrin voru þeir skutlaðir frá kajak og á veturna biðu veiðimenn við öndunaropin með skutul og spjót. Kjötið var nýtt til matar, skinnið notað í föt og spikið sem ljósgjafi. Hringanóraskinn þóttu einkum góð í kamik (snjóstígvél) og utanyfirföt. Enn er veiði á hringanóra stunduð um öll svæði Inuíta. Á suðurhluta Grænlands aðallega sem aukastarf sjómanna en á norður og austur Grænlandi og í flestum byggðum Inuíta í Kanada er veiðinn enn aðalstarf árið um kring og er bæði kjötið og skinnin nýtt.

[breyta] Heimildir

  • Páll Hersteinsson, ritstj. og aðalhöfundur: Íslensk spendýr. Með vatnslitamyndum og skýringarmyndum eftir Jón Baldur Hlíðberg. Vaka-Helgafell, Reykjavík, 2004. ISBN 9979-2-1721-9
  • Ronald M. Nowak: Walker's Mammals of the World. Johns Hopkins University Press, 1999. ISBN 0-8018-5789-9

[breyta] Ítarefni

Commons
Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt:


aa - ab - af - ak - als - am - an - ang - ar - arc - as - ast - av - ay - az - ba - bar - bat_smg - bcl - be - be_x_old - bg - bh - bi - bm - bn - bo - bpy - br - bs - bug - bxr - ca - cbk_zam - cdo - ce - ceb - ch - cho - chr - chy - co - cr - crh - cs - csb - cu - cv - cy - da - de - diq - dsb - dv - dz - ee - el - eml - en - eo - es - et - eu - ext - fa - ff - fi - fiu_vro - fj - fo - fr - frp - fur - fy - ga - gan - gd - gl - glk - gn - got - gu - gv - ha - hak - haw - he - hi - hif - ho - hr - hsb - ht - hu - hy - hz - ia - id - ie - ig - ii - ik - ilo - io - is - it - iu - ja - jbo - jv - ka - kaa - kab - kg - ki - kj - kk - kl - km - kn - ko - kr - ks - ksh - ku - kv - kw - ky - la - lad - lb - lbe - lg - li - lij - lmo - ln - lo - lt - lv - map_bms - mdf - mg - mh - mi - mk - ml - mn - mo - mr - mt - mus - my - myv - mzn - na - nah - nap - nds - nds_nl - ne - new - ng - nl - nn - no - nov - nrm - nv - ny - oc - om - or - os - pa - pag - pam - pap - pdc - pi - pih - pl - pms - ps - pt - qu - quality - rm - rmy - rn - ro - roa_rup - roa_tara - ru - rw - sa - sah - sc - scn - sco - sd - se - sg - sh - si - simple - sk - sl - sm - sn - so - sr - srn - ss - st - stq - su - sv - sw - szl - ta - te - tet - tg - th - ti - tk - tl - tlh - tn - to - tpi - tr - ts - tt - tum - tw - ty - udm - ug - uk - ur - uz - ve - vec - vi - vls - vo - wa - war - wo - wuu - xal - xh - yi - yo - za - zea - zh - zh_classical - zh_min_nan - zh_yue - zu -