Drexel-háskóli
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Drexel-háskóli (enska: Drexel University) er bandarískur einkaskóli og rannsóknarháskóli í Philadelphiu í Pennsylvaníu. Anthony J. Drexel stofnaði skólann árið 1891. Forseti skólans er Constantine Papadakis.
Stefna skólans hefur frá upphafi verið sú að veita fólki af báðum kynjum og óháð uppruna hagnýta menntun í vísindum. SKólinn hét upphaflega Drexel Institute of Art, Science and Industry en árið 1936 var nafninu breytt í Drexel Institute of Technology og 1970 var því aftur breytt í Drexel University. Þann 1. júlí 2002 sameinaðist MCP Hahnemann University formlega Drexel-háskóla og til varð læknaskóli Drexel-háskóla, Drexel University College of Medicine. Haustið 2006 var stofnaður lagaskóli Drexel-háskóla, Drexel College of Law.
U.S. News & World Report taldi Drexel-háskóla vera 109. besta háskóla Bandaríkjanna árið 2006 í flokki skóla sem veita doktorsgráður.[1] Tímaritið Business Week taldi að árið 2007 væri grunnnámið í viðskiptafræði við Drexel-háskóla það 58. besta í Bandaríkjunum[2] Stolt skólans er þó verkfræðiskólinn.
Við skólann starfa rúmlega 1.300 kennarar og þar eru á 12. þúsund grunnnemar og á 6. þúsund framhaldsnemar. Fjárfestingar skólans nema um hálfum milljarði bandaríkjadala. Einkunnarorð skólans eru „Science, Industry, Art“ eða „Vísindi, iðnaður og list“.