See also ebooksgratis.com: no banners, no cookies, totally FREE.

CLASSICISTRANIERI HOME PAGE - YOUTUBE CHANNEL
Privacy Policy Cookie Policy Terms and Conditions
Rasmus Kristján Rask - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið

Rasmus Kristján Rask

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Rasmus Kristján Rask
Rasmus Kristján Rask

Rasmus Kristján Rask eða Rasmus Christian Rask (22. nóvember 178714. nóvember 1832) var danskur málfræðingur, einn af fremstu málvísindamönnum 19. aldar. Hann fæddist í Brændekilde á Fjóni og dó í Kaupmannahöfn.

Efnisyfirlit

[breyta] Æviágrip

Foreldrar Rasks voru fremur fátæk, en komu honum þó í Lærða skólann í Óðinsvéum, þar sem hann fyrir tilviljun komst í kynni við íslensku. Fljótt komu í ljós óvenjulegir hæfileikar hans á sviði tungumála, sem vöktu athygli kennara hans. Eftir að hann hafði fengið í verðlaun hina glæsilegu Heimskringluútgáfu Gerhards Schönings, sem var með danskri og latneskri þýðingu, sökkti hann sér niður í hana og útbjó handa sjálfum sér íslenska málfræði og íslensk-danska orðabók. Þó að Rask rannsakaði um ævina tugi tungumála, stóð íslenskan ávallt hjarta hans næst, ekki aðeins vegna málvísindalegs gildis, heldur fannst honum hin íslensku rit blása sér í brjóst karlmennsku og stórhug.

Hann hóf nám í guðfræði við Kaupmannahafnarháskóla, 1807, en sinnti því lítið, því að tungumálin tóku hug hans allan. Rask bjó löngum við fremur kröpp kjör, en átti einnig góða stuðningsmenn sem gerðu sér grein fyrir hæfileikum hans, t.d. Rasmus Nyerup.

Árið 1811 birti Rask Vejledning til det Islandske eller gamle Nordiske Sprog, sem vakti mikla athygli fyrir nýstárlega sýn á málfræði. Forráðamenn Árnasafns í Kaupmannahöfn fengu augastað á þessum unga manni, og réðu hann til að búa til prentunar orðabók Björns Halldórssonar, Lexicon Islandico-Latino-Danicum (þ.e. íslensk orðabók með latneskum og dönskum þýðingum) (1814).

Sumarið 1813 rættist sá draumur Rasks að heimsækja Ísland, og þar dvaldist hann 1813–1815. Náði hann þar fullkomnum tökum á íslensku og kynnti sér bókmenntir og þjóðlíf landsmanna. Þar lauk hann við höfuðrit sitt, Undersøgelse om det gamle Nordiske eller Islandske Sprogs Oprindelse, sem sent var til Kaupmannahafnar 1814, sem framlag í verðlaunasamkeppni Vísindafélagsins danska. Það kom út í Kaupmannahöfn 1818, og í endurskoðaðri gerð í Stokkhólmi sama ár. Segja má að þetta rit hafi lagt grunninn að nútíma samanburðarmálfræði. Eldri málfræðingar höfðu dregið ályktanir um skyldleika tungumála út frá einstökum orðum, sem svipaði saman. Rask benti á að þetta væru oft tökuorð, og segðu því ekkert um uppruna tungumálsins. Í staðinn bar hann saman málfræðilegar hliðstæður, og sýndi t.d. fram á germönsku hljóðfærsluna, (t.d. latína: homo > íslenska: gumi). Hún er stundum kölluð lögmál Rasks og Grimms, eftir Rask og Þjóðverjanum Jacob Grimm, sem fjallaði um hana á prenti 1822.

Í Íslandsförinni sannfærðist Rask um að hamla þyrfti gegn dönskum áhrifum á íslenska tungu og efla íslenskt menningarlíf. Eftir að hann kom aftur til Kaupmannahafnar beitti hann sér fyrir því að Hið íslenska bókmenntafélag var stofnað (1816), og varð hann fyrsti forseti þess.

Í október 1816 lagði Rask af stað í málfræðilega og bókmenntalega rannsóknarferð, með stuðningi konungs og fleiri aðila. Var ætlunin að hann kynnti sér austurlandamál, til þess að fá betri hugmyndir um uppruna norrænna mála. Einnig átti hann að safna handritum fyrir bókasöfnin í Kaupmannahöfn. Rask fór fyrst til Stokkhólms, þar sem hann var tæp tvö ár, hélt fyrirlestra um íslenska tungu og gaf út nokkur rit, m.a. sænska útgáfu af höfuðriti sínu, einnig Sæmundar-Eddu og Snorra-Eddu á frummálinu, og Angelsaksisk sproglære (1818).

Frá Stokkhólmi hélt hann til Finnlands, og áfram til Pétursborgar (1819). Frá Rússlandi lagði hann upp í austurlandaferðina, fór til Persíu og var um tíma í Tabriz, Teheran, Persepolis og Shiraz. Á sex vikum tókst honum að ná þeim tökum á persnesku að hann gat talað hana auðveldlega.

Árið 1820 fór hann til Bombay (Mumbai) á Indlandi, og skrifaði þar grein: „A Dissertation on the Authenticity of the Zend Language“ (Trans. Lit. Soc. of Bombay, vol. iii). Frá Bombay hélt hann um Kalkútta (Kolkata), Madras (Chennai) og dönsku nýlenduna Trankebar (Tharangambadi), til Ceylon (nú Srí Lanka). Þar skrifaði hann ritgerðina: „A Dissertation respecting the best Method of expressing the Sounds of the Indian Languages in European Characters“ í Transactions of the Literary and Agricultural Society of Colombo. Einnig Singalesisk skriftlære, (Colombo 1821). Rask sneri aftur til Kaupmannahafnar í maí 1823, og hafði með sér fjölda austurlenskra handrita, á persnesku, palí, singalesísku og fleiri tungumálum, sem afhent voru Konungsbókhlöðu og Háskólabókasafni. Rannsóknir á síðari árum hafa sýnt að þessi handrit eru valin af mikilli þekkingu.

Árið 1822 hafði Rask náð góðum tökum á 25 tungumálum og mállýskum, og er sagður hafa rannsakað að einhverju marki annan eins fjölda.

Austurlandaferðin reyndist Rask erfið, og kom hann þaðan fársjúkur maður. Hann náði sér þó að nokkru og birti á næstu árum allmörg rit, sem jafnast þó ekki á við hans fyrri verk. Meðal þeirra eru: Spænsk málfræði (1824), Frísnesk málfræði (1825) o.fl. Hann hafði einnig hönd í bagga með enskri þýðingu á riti sínu, Anglo-Saxon Grammar, sem Benjamin Thorpe sá um (1830).

Árið 1825 tók Rask þátt í að stofna Hið konunglega norræna fornfræðafélag og var formaður þess fyrstu þrjú árin. Dróst hann þar inn í deilur við Íslendinga, 1831, sem lögðust þungt á hann, enda var heilsu hans þá farið að hraka. Rask dó 14. nóvember 1832.

Líklega eru fá dæmi um að erlendur maður hafi haft jafn mikla þýðingu fyrir mál og menningu annarrar þjóðar eins og Rasmus Kristján Rask fyrir Íslendinga.

[breyta] Ritaskrá (úrval)

  • Vejledning til det Islandske eller gamle Nordiske Sprog, (1811)
  • Undersøgelse om det gamle Nordiske eller Islandske Sprogs Oprindelse (Rannsókn á uppruna hinnar fornu norrænu eða íslensku tungu), 1818
  • Angelsaksisk sproglære (Fornensk málfræði), 1817
  • Singalesisk Skriftlære, 1821
  • Spansk Sproglære (Spænsk málfræði), 1824
  • Frisisk Sproglære (Frísnesk málfræði), 1825
  • Dansk Retskrivingslære (Um danska réttritun), 1826
  • Italiænsk Formlære (Ítölsk málfræði), 1827
  • Den gamle Ægyptiske Tidsregning (Fornegypsk tímatalsfræði), 1827
  • Vejledning til Akra-Sproget på Kysten Guinea, 1828
  • Den ældste hebraiske Tidsregning indtil Moses efter Kilderne på ny bearbejdet og forsynet med et Kart over Paradis, 1828
  • Ræsonneret lappisk Sproglære (Drög að samískri málfræði), 1832
  • Engelsk formlære (Ensk málfræði), 1832

[breyta] Heimildir

  • Danska og enska Wikipedian, 30. desember 2007.

[breyta] Tenglar


aa - ab - af - ak - als - am - an - ang - ar - arc - as - ast - av - ay - az - ba - bar - bat_smg - bcl - be - be_x_old - bg - bh - bi - bm - bn - bo - bpy - br - bs - bug - bxr - ca - cbk_zam - cdo - ce - ceb - ch - cho - chr - chy - co - cr - crh - cs - csb - cu - cv - cy - da - de - diq - dsb - dv - dz - ee - el - eml - en - eo - es - et - eu - ext - fa - ff - fi - fiu_vro - fj - fo - fr - frp - fur - fy - ga - gan - gd - gl - glk - gn - got - gu - gv - ha - hak - haw - he - hi - hif - ho - hr - hsb - ht - hu - hy - hz - ia - id - ie - ig - ii - ik - ilo - io - is - it - iu - ja - jbo - jv - ka - kaa - kab - kg - ki - kj - kk - kl - km - kn - ko - kr - ks - ksh - ku - kv - kw - ky - la - lad - lb - lbe - lg - li - lij - lmo - ln - lo - lt - lv - map_bms - mdf - mg - mh - mi - mk - ml - mn - mo - mr - mt - mus - my - myv - mzn - na - nah - nap - nds - nds_nl - ne - new - ng - nl - nn - no - nov - nrm - nv - ny - oc - om - or - os - pa - pag - pam - pap - pdc - pi - pih - pl - pms - ps - pt - qu - quality - rm - rmy - rn - ro - roa_rup - roa_tara - ru - rw - sa - sah - sc - scn - sco - sd - se - sg - sh - si - simple - sk - sl - sm - sn - so - sr - srn - ss - st - stq - su - sv - sw - szl - ta - te - tet - tg - th - ti - tk - tl - tlh - tn - to - tpi - tr - ts - tt - tum - tw - ty - udm - ug - uk - ur - uz - ve - vec - vi - vls - vo - wa - war - wo - wuu - xal - xh - yi - yo - za - zea - zh - zh_classical - zh_min_nan - zh_yue - zu -