Kaupfélag Eyfirðinga
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gerð: | Samvinnufélag |
Stofnað: | 19. júní 1886 |
Staðsetning: | Glerárgötu 36, 600 Akureyri |
Lykilmenn: | Hannes Karlsson formaður stjórnar, Björn Friðþjófsson varaformaður, Jóhannes Ævar Jónsson ritari |
Starfsemi: | Fjárfestingar félagsmanna |
Vefslóð: | http://www.kea.is |
Kaupfélag Eyfirðinga, best þekkt undir skammstöfuninni KEA, er íslenskt fyrirtæki sem stofnað var 1886 sem kaupfélag. Félagið var á tímabili stærsti atvinnuveitandi á Norðurlandi en má muna sinn fífil fegurri. Í dag starfar KEA sem fjárfestingarfélag sem öðrum þræði vinnur í þágu eigenda sinna að eflingu atvinnulífs og búsetuskilyrða á starfssvæði sínu.
Kaupfélag Eyfirðinga var stofnað þann 19. júní 1886 á Grund í Eyjafirði. Kom þar saman hópur manna og stofnaði Pöntunarfélag Eyjafjarðar, en hálfu ári síðar var nafninu breytt í Kaupfélag Eyfirðinga. Upphaflegur tilgangur félagsins, líkt og annarra kaupfélaga, var að útvega félagsmönnum vörur á hagstæðu verði. Á árunum eftir fyrri heimsstyrjaldarinnar byggði KEA verslunarhús, sláturhús, mjólkurvinnslustöðvar og frystihús til frystingar á kjöti til útflutnings.
Á fimmtíu ára afmæli KEA, 1936, voru félagsmenn um 2400, þar af var fjórðungur frá Akureyri. Þá sneri félagið sér að sjávarútvegi og stofnaði Útgerðarfélag KEA og gerði út skip. Kaupfélag Eyfirðinga tók þátt í að stofna ESSO á Íslandi, Olíufélagið hf. árið 1946. Upphaflegt hlutafé Olíufélagsins hf. var 850.000 kr en KEA lagði til 195.000 kr því og var næst stærsti stofnhluthafi á eftir SÍS.
Kaupfélagið kallast KEA í daglegu tali, sem er skammstöfun á „Kaupfélag Eyfirðinga, Akureyri“ eða „Kaupfélag Eyfirðinga og Akureyrar“. KEA hefur breyst frá því að vera hefðbundið kaupfélag, yfir í að vera fjárfestingarfélag. Það er þó ennþá samvinnufélag og gengur undir nafninu Kaupfélag Eyfirðinga svf., en er enn kallað KEA.
Í febrúar 2005 kom það að stofnun félagsins Norðurvegar með það að markmiði að „sem fyrst verði ráðist í nauðsynlegar undirbúningsathuganir vegna vegagerðar um Kjöl með það að markmiði að tengja Norður- og Suðurland.“