Web - Amazon

We provide Linux to the World

ON AMAZON:


We support WINRAR [What is this] - [Download .exe file(s) for Windows]

CLASSICISTRANIERI HOME PAGE - YOUTUBE CHANNEL
SITEMAP
Audiobooks by Valerio Di Stefano: Single Download - Complete Download [TAR] [WIM] [ZIP] [RAR] - Alphabetical Download  [TAR] [WIM] [ZIP] [RAR] - Download Instructions

Make a donation: IBAN: IT36M0708677020000000008016 - BIC/SWIFT:  ICRAITRRU60 - VALERIO DI STEFANO or
Privacy Policy Cookie Policy Terms and Conditions
Sannleikur - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið

Sannleikur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Verkið Sannleikur eftir Frakkann Jules Joseph Lefebvre
Verkið Sannleikur eftir Frakkann Jules Joseph Lefebvre

Sannleikur er heimspekilegt hugtak, sem gegnir mikilvægu hlutverki í málspeki og þekkingarfræði, en er auk þess hluti af hversdagslegum orðaforða okkar og er eitt mesta grundvallarhugtak sem við búum yfir.[1]

Þegar einhver er sammála fullyrðingu, segir hann að hún sé „sönn“. Þekkingarfræði, sem fjallar um eðli og uppsprettu þekkingar, leitar lausna á fjölmörgum heimspekilegum gátum um „sannleika“ en auk þess er sannleikshugtakið gríðarlega mikilvægt í málspeki og er nátengt merkingarhugtakinu.

Fyrsti vandi heimspekingsins er að ákveða hvers konar hlutir geti verið sannir eða ósannir, þ.e. að finna svonefnda sannbera.[2] Í húfi er orðaforðinn, sem við notum til að fjalla um sannleikann. Síðan eru til fjölmargar kenningar um hvað geri sannberana sanna. Sumar kenningar, „þéttar“ kenningar, fara með sannleika líkt og eiginleika sem einkenna sannberana.[3] Aðrar kenningar, sem teljast til úrdráttarhyggjunnar, leggja til að sannleikur sé lítið annað en hagnýtt tól í tungumáli okkar en standi ekki fyrir neinn eiginleika sem sannberar geta haft.[4] Þessar kenningar eru undir áhrifum frá nýjungum í formlegri rökfræði sem hafa varpað ljósi á hvernig sannleikur virkar bæði í formlegum kerfum og náttúrulegum tungumálum.[5]

Óháðar þessum vandamálum eru gátur um hvernig við vitum að eitthvað sé satt.[6] Maður virðist vita að maður finni fyrir tannpínu á annan hátt en maður veit að jörðin sé þriðja reikistjarnan frá sólu. Ef til vill er önnur þekkingin huglæg og fengin með innskoðun en en hin hlutlæg og fengin með athugunum eða gildum ályktunum. Á sama hátt virðist sannleikur stundum velta á viðhorfi okkar og bakgrunni en stundum vera algildur og óháður afstöðu okkar. Heimspekingar hafa afar ólíkar hugmyndir um öll þessi atriði.

Efnisyfirlit

[breyta] Sannberar

Heimspekingar nefna það sem getur verið satt eða ósatt „sannbera“. Staðhæfingar, setningar, fullyrðingar, hugmyndir, skoðanir og dómar hafa verið nefnd sem sannberar. Persóna eða guð getur ekki verið sannberi í heimspekilegum skilningi.[7]

Sumir heimspekingar hafna einum eða fleirum þessara flokka sannbera, eða færa rök fyrir því að sumir þeirra geti aðeins verið sannir (eða ósannir) í yfirfærðri merkingu. Þessu er haldið fram á grundvelli sannleikskenninga af því tagi sem fjallað verður um hér að neðan.

Til dæmis er því oft haldið fram að staðhæfingar séu það eina sem getur verið satt í bókstaflegum skilningi. Með staðhæfingu í heimspekilegu samhengi er átt við inntak fullyrðingar eða skoðunar sem getur verið tjáð með ólíkum setningum á ólíkum tungumálum. Þá er sagt að fullyrðingar og setningar séu sannar ef þær „tjá“, „lýsa“ eða „fela í sér“ sanna staðhæfingu eða „vísa til“ sannrar staðhæfingar. Í þessum skilningi á staðhæfingu fela enska setningin „The sky is blue“ og þýska setningin „Der Himmel ist blau“ í sér sömu staðhæfinguna; þær staðhæfa báðar það sama enda þótt þær séu ólíkar setningar með ólíkum orðum sem tilheyra ólíkum tungumálum.

Á hinn bóginn hafa sumir heimspekingar haldið því fram að staðhæfingar og önnur áþekk sértæk fyrirbæri séu dularfull og útskýri lítið; vissulega hljóti setningar eða yrðing setningar að vera skýrari og meiri grundvallar sannberar.

[breyta] Sannleikskenningar

Heimspekingar og rökfræðingar hafa lagt til fjöldann allan af kenningum um eðli sannleikans og er þeim oftast er skipt í tvo hópa:

[breyta] Þéttar kenningar

Sumar kenningar eiga það sameiginlegt að telja sannleikshugtakið vera „innihaldsríkt“ (stundum „þétt“) hugtak. Samkvæmt þessum kenningum má taka alvarlega yfirborðsmálfræði setninga, sem virðast fela í sér að setningu sé eignaður eiginleikinn að vera sönn, svo sem „Setningin ‚Snjór er hvítur‘ er sönn“. Sannleikur er eiginleiki, rétt eins og roði (að vera rauður) er eiginleiki, sem eignaður er hlöðu í setningunni „Hlaðan er rauð“. Verkefnið er svo að útskýra þennan eiginleika. Samkvæmt þessum kenningum þarfnast sannleikur þess vegna útskýringar og hægt er að segja ýmislegt um hann:

  • Samkvæmt samsvörunarkenningunni um sannleikann er sannleikur fólginn í samsvörun við hlutlægan veruleika. Setning er því sögð vera sönn ef og aðeins ef hún lýsir raunverulegri stöðu mála í heiminum.[8]
  • Samkvæmt samkvæmniskenningunni um sannleikann er sannleikur fólginn í innri samkvæmni einhvers hóps setninga eða skoðana. Skoðun manns er til dæmis sönn ef og aðeins ef hún er samrýmanleg öllum eða flest öllum öðrum skoðunum manns. Oftast eru þó gerðar meiri kröfur til „samkvæmninnar“ en einungis mótsagnarleysi: réttlæting og vitnisburður eru til að mynda algeng viðmið.[9]
  • Samkvæmt samkomulagskenningunni um sannleikann er sannleikur einfaldlega spurning um samkomulag.
  • Gagnhyggjan (eða „pragmatisminn“) felur í sér, að sannleikur sé fólginn í nytsemi skoðunar eða hugmyndar.[10]
  • Félagssmíðarhyggjan felur í sér, að sannleikur sé samfélagsleg afurð, einskorðist við tíma og samfélag, og mótist að einhverju leyti af valdabaráttu innan samfélagsins.

[breyta] Úrdráttarhyggja

Aðrir heimspekingar hafna því að sannleikshugtakið sé innihaldsríkt í þessum skilningi.[11] Samkvæmt úrdráttarhyggjunni er það að segja „Setningin ‚2 + 2 = 4‘ er sönn” ekkert annað en að segja „2 + 2 = 4“ og um sannleikann er ekkert meira að segja. Þessi afstaða er kölluð „úrdráttarhyggja“ (vegna þess að búið er að draga úr mikilvægi sannleikskenninga) eða „afvitnunarhyggja“ (vegna þess að með sannleiksumsögninni hverfa gæsalappirnar utan um setninguna sem sögð var sönn) eða „naumhyggja“. Helsta viðfangsefni kenninga af þessu tagi er að útskýra sérstök tilvik, þar sem sannleikur virðist hafa sérstaka og áhugaverða eiginleika. (Sjá t.d. Merkingarfræðilegar þverstæður og umfjöllun hér að neðan.)

Samkvæmt þessu sjónarmiði (sjá Gottlob Frege og F.P. Ramsey) er sannleikur ekki nafn á eiginleika, sem staðhæfingar hafa; „eitthvað“ sem hægt er að hafa kenningu um. Sú skoðun að sannleikur sé eiginleiki, er bara tálsýn, sem stafar af þeirri staðreynd að sannleiksumsögnin, „er satt”, er til í máli okkar. Þar sem flestar umsagnir eigna einhverju eiginleika, göngum við út frá því að „er satt“ geri slíkt hið sama. En úrdráttarhyggjumenn segja, að fullyrðingar, sem „virðast“ segja að setningar séu sannar, geri í raun ekkert annað en að gefa til kynna, að sá sem talar, sé sammála fullyrðingunni.

Ofaukakenningin um sannleikann segir til dæmis, að það að segja að fullyrðing sé sönn, sé ekkert annað en að halda fram fullyrðingunni.[12] Að segja „Setningin ‚Snjór er hvítur‘ er sönn“ er þess vegna hvorki meira né minna en að segja, að snjór sé hvítur.

Annað dæmi um úrdráttarhyggju er framkvæmdarkenningin um sannleikann sem eignuð er P.F. Strawson.[13] Samkvæmt kenningunni jafngildir það að segja „Setningin ‚Snjór er hvítur‘ er sönn“ því að framkvæma málgjörð, sem gefur til kynna að maður sé sammála fullyrðingunni að snjór sé hvítur (nokkurn veginn eins og að kinka kolli til samþykkis). Sú hugmynd, að sumar fullyrðingar séu líkari athöfnum en venjulegum tjáskiptafullyrðingum, er ekki eins undarleg og má virðast í fyrstu. Íhugið til dæmis þegar brúðurin segir „Já“ á viðeigandi tímapunkti í brúðkaupi; þá er hún að framkvæma athöfn, sem er fólgin í að ganga í hjónaband með brúðgumanum. Hún er ekki að lýsa sér þannig, að hún sé að ganga að eiga brúðgumann.

Þriðja tegundin af úrdráttarhyggju um sannleikann er afvitnunarhyggjan sem notast við kenningu Alfreds Tarski: Að segja að „P“ sé sönn er að segja P. Nafn kenningarinnar kemur til af því að samkvæmt kenningunni jafngildir það, að segja að setning innan tilvitnanamerkja sé sönn því, að taka burt tilvitnanamerkin og segja setninguna.

Ein ítarlegasta kenningin af þessu tagi er setningarhlutverkakenningin sem Dorothy Grover, Joseph Camp og Nuel Belnap settu fyrst fram sem nánari útfærslu á kenningu F.P. Ramseys.[14] Þau færðu rök fyrir því að setningar á borð við „Þetta er satt“ hafi setningarhlutverk og endurtaki einungis inntak annarra setninga. Á sama hátt og „hann“ merkir það sama og „hundurinn minn“ í setningunni „Hundurinn minn var svangur og þess vegna fékk hann að borða“ á „Þetta er satt“ að merkja það sama og „Það rignir“ ef þú segir síðari setninguna og ég segi síðan þá fyrri.

[breyta] Formlegar skilgreiningar

[breyta] Merkingarfræðileg kenning um sannleikann

Samkvæmt Merkingarfræðilegu kenningunni um sannleikann[15] gildir eftirfarandi um setningar á sérhverju máli: „P“ er sönn ef og aðeins ef P þar sem „P“ er tilvísun til setningarinnar (nafn setningarinnar) og P er bara setningin sjálf.

Pólski rökfræðingurinn og heimspekingurinn Alfred Tarski þróaði kenninguna um formleg mál (svo sem um formlega rökfræði).[16] Hann setti henni eftirfarandi takmörk: Ekkert mál getur innihaldið eigin sannleiksumsögn, það er að segja yrðingin „er sönn“ gæti ekki átt við um setningar á sama máli. Hann greindi á milli framsetningarmáls og viðfangsmáls. Viðfangsmál er málið sem rætt er um. Þegar sannleiksumsögninni virðist beitt á setningar á sama máli verður að líta svo á að setningin sem rætt er um tilheyri viðfangsmálinu en sannleiksumsögnin framsetningarmálinu. (Viðfangsmálið getur þó innihaldið sannleiksumsögn sem beita má á þriðja mál.) Ástæða þess að Tarski setti þessi takmörk er sú, að mál, sem innihalda eigin sannleiksumsögn, munu einnig innihalda mótsagnakenndar setningar eins og þverstæðu lygarans: „Þessi setning er ósönn“. Af þessum sökum taldi Tarski að merkingarfræðilega kenningin hans gæti ekki átt við um náttúruleg tungumál, svo sem íslensku, ensku, frönsku o.s.frv. vegna þess að þau innihalda eigin sannleiksumsagnir. Tarski áleit kenningu sína vera afbrigði af samsvörunarkenningunni um sannleikann.

Bandaríski heimspekingurinn Donald Davidson notaði kenningu Tarskis sem grundvöll fyrir sannkjara-merkingarfræði sinni og tengdi hana kenningu sinni um túlkun frá rótum.[17]

[breyta] Sannleikskenning Kripkes

Bandaríski heimspekingurinn Saul Kripke heldur því fram að náttúrulegt tungumál geti innihaldið eigin sannleiksumsögn án þess að valda mótsögnum.[18] Hann sýndi hvernig þetta væri hægt á eftirfarandi hátt:

  • Byrjum með hlutmengi setninga náttúrulegs tungumáls, þar sem orðasambandið „er sönn“ kemur hvergi fyrir (og ekki heldur „er ósönn“). Setningin „Hlaðan er stór” fær að vera með en ekki setningin „Setningin ‚Hlaðan er stór‘ er sönn“, né vandræðasetningar á borð við „Þessi setning er ósönn“.
  • Skilgreinum næst sannleika einungis fyrir setningarnar í hlutmenginu.
  • Víkkum svo skilgreininguna út, þannig að hún nái einnig utan um setningar, sem segja að upprunalegu setningarnar í hlutmenginu séu sannar eða ósannar. Setningin „Setningin ‚Hlaðan er stór‘ er sönn“ fær núna að vera með, en hvorki „Þessi setning er ósönn“ né „Setningin ‚Setningin ‚Hlaðan er stór‘ er sönn‘ er sönn“.
  • Næst skilgreinum við sannleikann fyrir allar setningar, sem segja, að setningarnar í skrefinu á undan séu sannar eða ósannar. Ímyndum okkur, að þetta ferli sé endurtekið endalaust þannig að sannleikur sé skilgreindur fyrir „Hlaðan er stór“, síðan fyrir „Setningin „Hlaðan er stór“ er sönn“, síðan fyrir „Setningin ‚Setningin ‚Hlaðan er stór‘ er sönn‘ er sönn“ og svo framvegis.

Tökum eftir því, að sannleikur er aldrei skilgreindur fyrir setningar eins og „Þessi setning er sönn”, úr því að hún var ekki í upprunalega hlutmenginu og segir ekki að nein setning í því hlutmengi sé sönn. Með orðalagi Kripkes eru þessar setningar „ógrundvallaðar“. Þar sem þessum setningum er aldrei eignað sanngildi þrátt fyrir að ferlið sé endurtekið endalaust, gefur kenning Kripkes til kynna, að sumar setningar séu hvorki sannar né ósannar. Þetta brýtur gegn tvígildislögmálinu: sérhver setning er annaðhvort sönn eða ósönn. Þar sem lögmálið er ómissandi þáttur í þverstæðu lygarans er þverstæðan leyst með kenningunni.

[breyta] Tegundir sannleika

[breyta] Huglægur eða hlutlægur sannleikur

Við þekkjum huglægan sannleika best. Það að mér líki spergilkál eða að ég finni til í vinstra fæti er hvort tveggja huglægu sannleikur, þ.e.a.s. það veltur á hugmyndum mínum, viðhorfum og afstöðu. Samkvæmt frumspekilegri hughyggju allur sannleikur, þ.e. allar sannar setningar, séu af þessu tagi. Huglægur sannleikur er það eina sem við getum þekkt, á einn eða annan hátt er öll okkar reynsla fólgin í huglægum upplifunum okkar. Þessi afstaða hafnar ekki endilega hluthyggju en í það minnsta er fólgið í henni að við höfum ekki kost á beinni reynslu af raunheiminum.

Á hinn bóginn á hlutlægur sannleikur að vera á einn eða annann hátt óháður huglægum skoðunum okkar, smekk okkar og viðhorfum. Sannindi af þessu tagi myndu byggja á því hvernig hinn ytri heimur er, en ekki á hugarferlum okkar.

[breyta] Afstæður eða algildur sannleikur

Afstæð sannindi eru fullyrðingar eða staðhæfingar sem eru einungis sannar miðað við einhvern staðal, einhverja venju eða eitthvert samkomulag eða sjónarmið. Venjulega er staðallinn sagður vera fólginn í menningarlegum gildum þeirrar menningar sem maður tilheyrir. Allir eru sammála um að sum sannindi séu afstæð: það að gaffallinn sé vinstra megin við skeiðina veltur á því hvar maður stendur. En afstæðishyggja er sú kenning að öll sannindi innan einhvers sviðs (t.d. í siðfræði eða fagurfræði eða jafnvel öll sannindi almennt) séu af þessu tagi. Afstæðishyggja felur yfirleitt í sér að það sem er satt sé breytilegt frá einu menningarsamfélagi til annars og frá einu tímabili til annars. Til dæmis er afstæðishyggja í siðfræði sú kenning að siðferðileg sannindi velti á menningarlegum gildum.[19]

Algengastu og sterkustu andmælin við ótakmarkaðri afstæðishyggju um sannleikann voru sett fram af gríska heimspekingnum PlatonI í kringum árið 360 f.Kr. í samræðunni Þeætetosi. Platon eignar fræðaranum Prótagórasi slíka kenningu en benti á að ef öll sannindi eru afstæð, þá er einnig afstætt hvort öll sannindi séu afstæð. Þannig má segja að erfitt sé að setja fram ótakmarkaða afstæðishyggju um sannleikann án þess að grafa undan eigin kenningu. Kenningar af því tagi eru sagðar vera sjálfskæðar.[20]

Andstætt afstæðum sannindum eru algild sannindi. Þau síðarnefndu eru fullyrðingar eða staðhæfingar sem eru sagðar vera sannar fyrir öll menningarsamfélög og öll tímabil. Múslimar telja til dæmis að setningin „Guð er máttugur” tjái algildan sannleika; fylgjendur Immanuels Kant telja að skilyrðislausa skylduboðið, „Breyttu einungis þannig að þú getir viljað að reglan í breytni þinni verði að algildu lögmáli“, sé algild siðferðileg sannindi; flestir telja sennilega að „2 + 2 = 4“ gildi jafnt fyrir alla menn á öllum tímum. Þetta eru sannindi sem eru oft sögð leiða af eðli heimsins, koma frá guði eða stafa af mannlegu eðli.

Algildishyggja á tilteknu sviði er sú kenning að allar fullyrðingar innan þess sviðs séu annaðhvort sannar eða ósannar á algildan hátt; engin þeirra er sönn fyrir sum menningarsamfélög eða á tilteknu tímabili. Siðferðileg hluthyggja er til dæmis það viðhorf að siðferðilegar fullyrðingar á borð við „Það er rangt að borða dýr“ eða „Fóstureyðingar eru rangar“ séu annaðhvort sannar fyrir alla menn á öllum tímum eða ósannar fyrir alla menn á öllum tímum.

[breyta] Annars konar notkun orðsins „sannur“

Auk þess að vera notað um staðhæfingar eða aðra sannbera eru orðin „sannur“ og „ósannur“ einnig notuð á annan hátt í íslensku:

  1. Um fólk, oftast í jákvæðri merkingu; orðið er þá notað á sama hátt og orðið „raunverulegur“, til dæmis í setningunni „Hann er sannur vinur“. Það má hugsa sér að merkingarfærsla hafi orðið með þeim hætti að setningin jafngildi setningunni „Það er satt að hann er vinur” sem jafngildir setningunni „Setningin „Hann er vinur“ er sönn“.
  2. „Sannur“ getur þýtt „í samræmi við gefinn staðal“,til dæmis í setningunni „Hann er sannur Íslendingur“. Það má hugsa sér að sams konar merkingarfærsla hafi átt sér stað hér og í (1) að ofan.

[breyta] Tilvísanir

  1. Ítarlegan inngang að sannleikskenningum er að finna í Richard Kirkham, Theories of Truth (Bradford Books, 1992).
  2. „Truth: 2. What Sort of Things are True (or False)?“ hjá The Internet Encyclopedia of Philosophy
  3. Samsvörunarkenningar um sannleikann eru slíkar kenningar. Sjá „Correspondence theory of truth“ hjá Standord Encyclopedia of Philosophy. Sbr. „Truth: 2. What Sort of Things are True (or False)?“ og „Truth: 3. Correspondence Theory“ hjá The Internet Encyclopedia of Philosophy.
  4. Sjá Michael Williams, „Truth“ í Encyclopedia of Philosophy, (Macmillan, 1996): 572-573. Sjá einnig Paul Horwich, Truth, (2. útg, 1988) og Hartry Field, Truth and the Absence of Fact (2001). Sbr. einnig „Deflationary theory of truth“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy.
  5. „Tarski's Definition of Truth“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy.
  6. „Truth: 1. The Principal Problem“ hjá The Internet Encyclopedia of Philosophy.
  7. „Truth: 2. What Sort of Things are True (or False)?“ hjá The Internet Encyclopedia of Philosophy.
  8. „Correspondence theory of truth“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy. Sbr. „Truth: 3. Correspondence Theory“ hjá The Internet Encyclopedia of Philosophy.
  9. Nicholas Rescher, The Coherence Theory of Truth (Oxford: Clarendon Press, 1973). Sbr. „Coherence Theory of Truth“ á Stanford Encyclopedia of Philosophy og „Truth: 5. Coherence Theories“ á The Internet Encyclopedia of Philosophy.
  10. „Truth: 6. Pragmatic Theories“ á The Internet Encyclopedia of Philosophy.
  11. „Deflationary Theory of Truth“ á Stanford Encyclopedia of Philosophy, sbr. „Truth: 7. Deflationary Theories“ á The Internet Encyclopedia of Philosophy.
  12. „Truth: 7. Deflationary Theories“ á The Internet Encyclopedia of Philosophy.
  13. „Truth: 7. Deflationary Theories“ á The Internet Encyclopedia of Philosophy.
  14. Dorothy Grover, The Prosentential Theory of Truth (Princeton: Princeton University Press, 1992). Sbr. „The Prosentential Theory of Truth“ á The Internet Encyclopedia of Philosophy.
  15. „Tarski's Definition of Truth“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy.
  16. Alfred Tarski, „Merkingarfræðilega hugmyndin um sannleikann og undirstöður merkingarfræðinnar“. Ásta Kristjána Sveinsdóttir og Arnór Hannibalsson (þýð.) hjá Einari Loga Vignissyni og Ólafi Páli Jónssyni (ritstj.) Heimspeki á tuttugustu öld (Reykjavík: Heimskringla, 1994). Greinina má nálgast á ensku hér
  17. Donald Davidson, Truth & Predication (Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 2005). Sbr. „Donald Davidson: 3. Meaning and Truth“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy.
  18. Um kenningu Kripkes, sjá Saul Kripke, „An Outline of a Theory of Truth”, Journal of Philosophy 72 (1975): 690-716.
  19. Sjá Simon Blackburn, Truth: A Guide for the Perplexed (London: Penguin Books, 2005), einkum bls 25-44.
  20. Um umfjöllun Platons á kenningu Prótagórasar, sjá Myles Burnyeat, „Protagoras and Self-Refutation in Plato's Theaetetus“ í Philosophical Review 1976.

[breyta] Heimildir

  • Greinin „Truth á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 14. október 2005.
  • Blackburn, Simon, Truth: A Guide for the Perplexed (London: Penguin Books, 2005).
  • Blackburn, S. og Simmons K., Truth. (Oxford: Oxford University Press, 1999). Greinasafn með sígildum greinum um sannleikshugtakið, m.a. eftir William James, Bertrand Russell, F.P. Ramsey, og Alfred Tarski.
  • Field, Hartry,Truth and the Absence of Fact, (Oxford: Oxford University Press, 2001).
  • Davidson, Donald, Truth & Predication (Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 2005).
  • Grover, Dorothy, The Prosentential Theory of Truth (Princeton: Princeton University Press, 1992).
  • Habermas, Jürgen, Truth and Justification. (Cambridge, Mass.: MIT Press, 2003).
  • Horwich, Paul Truth. (Oxford: Oxford University Press, 1988).
  • Kirkham, Richard, Theories of Truth (Bradford Books, 1992).
  • Kripke, Saul, „An Outline of a Theory of Truth”, Journal of Philosophy 72 (1975): 690-716.
  • Nietzsche, Friedrich, „Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi“. Magnús Diðrik Baldursson og Sigríður Þorgeirsdóttir (þýð.), Skírnir 167 (1993): 15-33.
  • Rescher, Nicholas, The Coherence Theory of Truth (Oxford: Clarendon Press, 1973). ISBN 0-19-824401-0.
  • Tarski, Alfred, „Merkingarfræðilega hugmyndin um sannleikann og undirstöður merkingarfræðinnar“. Ásta Kristjána Sveinsdóttir og Arnór Hannibalsson (þýð.) hjá Einari Loga Vignissyni og Ólafi Páli Jónssyni (ritstj.) Heimspeki á tuttugustu öld (Reykjavík: Heimskringla, 1994). Greinina má nálgast á ensku hér.
  • Williams, Bernard, Truth and Truthfulness (Princeton: Princeton University Press, 2004). ISBN 0-691-11791-8.

[breyta] Tengt efni

[breyta] Sannleikur í rökfræði

[breyta] Merkir heimspekingar sem hafa fjallað um sannleikann

[breyta] Tenglar

Wikivitnun
Wikivitnun hefur upp á að bjóða safn tilvitnana á síðunni:
Þetta er úrvalsgrein|
Static Wikipedia 2008 (March - no images)

aa - ab - als - am - an - ang - ar - arc - as - bar - bat_smg - bi - bug - bxr - cho - co - cr - csb - cv - cy - eo - es - et - eu - fa - ff - fi - fiu_vro - fj - fo - frp - fur - fy - ga - gd - gl - glk - gn - got - gu - gv - ha - hak - haw - he - ho - hr - hsb - ht - hu - hy - hz - ia - id - ie - ig - ii - ik - ilo - io - is - it - iu - jbo - jv - ka - kab - kg - ki - kj - kk - kl - km - kn - ko - kr - ks - ksh - ku - kv - kw - ky - la - lad - lb - lbe - lg - li - lij - lmo - ln - lo - lt - lv - map_bms - mg - mh - mi - mk - ml - mn - mo - mr - ms - mt - mus - my - mzn - na - nah - nap - nds - nds_nl - ne - new - ng - nn - -

Static Wikipedia 2007 (no images)

aa - ab - af - ak - als - am - an - ang - ar - arc - as - ast - av - ay - az - ba - bar - bat_smg - bcl - be - be_x_old - bg - bh - bi - bm - bn - bo - bpy - br - bs - bug - bxr - ca - cbk_zam - cdo - ce - ceb - ch - cho - chr - chy - co - cr - crh - cs - csb - cu - cv - cy - da - de - diq - dsb - dv - dz - ee - el - eml - en - eo - es - et - eu - ext - fa - ff - fi - fiu_vro - fj - fo - fr - frp - fur - fy - ga - gan - gd - gl - glk - gn - got - gu - gv - ha - hak - haw - he - hi - hif - ho - hr - hsb - ht - hu - hy - hz - ia - id - ie - ig - ii - ik - ilo - io - is - it - iu - ja - jbo - jv - ka - kaa - kab - kg - ki - kj - kk - kl - km - kn - ko - kr - ks - ksh - ku - kv - kw - ky - la - lad - lb - lbe - lg - li - lij - lmo - ln - lo - lt - lv - map_bms - mdf - mg - mh - mi - mk - ml - mn - mo - mr - mt - mus - my - myv - mzn - na - nah - nap - nds - nds_nl - ne - new - ng - nl - nn - no - nov - nrm - nv - ny - oc - om - or - os - pa - pag - pam - pap - pdc - pi - pih - pl - pms - ps - pt - qu - quality - rm - rmy - rn - ro - roa_rup - roa_tara - ru - rw - sa - sah - sc - scn - sco - sd - se - sg - sh - si - simple - sk - sl - sm - sn - so - sr - srn - ss - st - stq - su - sv - sw - szl - ta - te - tet - tg - th - ti - tk - tl - tlh - tn - to - tpi - tr - ts - tt - tum - tw - ty - udm - ug - uk - ur - uz - ve - vec - vi - vls - vo - wa - war - wo - wuu - xal - xh - yi - yo - za - zea - zh - zh_classical - zh_min_nan - zh_yue - zu -
https://www.classicistranieri.it - https://www.ebooksgratis.com - https://www.gutenbergaustralia.com - https://www.englishwikipedia.com - https://www.wikipediazim.com - https://www.wikisourcezim.com - https://www.projectgutenberg.net - https://www.projectgutenberg.es - https://www.radioascolto.com - https://www.debitoformativo.it - https://www.wikipediaforschools.org - https://www.projectgutenbergzim.com