Kartöflumygla
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kartöflumygla | ||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Kartafla sýkt af kartöflumyglu
|
||||||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||||
|
||||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||||
Phytophthora infestans (Mont.) de Bary |
Kartöflumygla (fræðiheiti: Phytophthora infestans) er eggsveppur sem leggst á kartöflur og veldur rotnun á bæði grösum og hnýðum (í mismiklum mæli eftir kartöfluafbrigðum). Kartöflumyglan olli víðtækum uppskerubresti og hungursneyð í Evrópu um miðja 19. öld. Myglan getur líka lagst á aðrar jurtir af náttskuggaætt, s.s. tómata.
Myglan smitast með gróum sem sitja á sýktum hnýðum yfir veturinn (sérstaklega þeim sem skilin eru eftir í jörðu frá síðasta ári), á laufum í safnhaugum og geta einnig borist víða með vindinum. Þegar hiti er yfir 10°C og rakastig yfir 75% breiðir myglan mjög hratt úr sér og leggjur allt kartöflubeðið fljótlega undir sig.
Fyrstu einkenni kartöflumyglu eru svartir blettir á blaðendum og stönglum. Fljótlega falla kartöflugrösin alveg.
Kartöflumygla kemur enn upp með reglulegu millibili. Sveppaeitur er notað fyrirbyggjandi til að koma í veg fyrir smit þegar smithætta er. Algengt var að nota Metalaxyl en myglan hefur sýnt að hún myndar þol gegn því ef það er notað eitt og sér.
Hægt er að fyrirbyggja mygluna með því að hreykja mold upp að stönglunum og lengja þannig leiðina sem myglan þarf að fara til að komast í laufin. Einnig er hægt að eyða grösunum, t.d. með jurtaeitri eða brennisteinssýru, tveimur vikum fyrir uppskeru.