Rómaveldi
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Rómaveldi eða Rómverska heimsveldið var ríki og menningarsvæði í kringum Miðjarðarhaf og í Vestur-Evrópu sem var stjórnað frá Rómarborg. Segja má að það hafi verið til frá árunum 753 f.Kr. (stofnun Rómar, samkvæmt fornri trú þar í borg) til ársins 476 e.Kr. (þegar síðasta keisaranum í Róm var steypt af stóli). Eftir það lifði þó austrómverska keisaradæmið, sem klofið hafði verið frá því vestrómverska árið 364 og var stjórnað frá Konstantínópel. Sögu rómverska heimsveldisins má skipta í þrjú tímabil: Rómverska konungdæmið, rómverska lýðveldið og rómverska keisaradæmið. Það var ekki fyrr en seint á lýðveldistímanum og á tíma keisaradæmisins sem yfirráðarsvæði Rómar fór að færast út fyrir Appennínaskagann.
Rómversk menning lagði mikið af mörkum í þróun laga, stríðs, tækni, bókmennta, listar og byggingarlistar í hinum vestræna heimi og saga Rómar er enn áhrifamikil nú á dögum.
Efnisyfirlit |
[breyta] Saga
[breyta] Goðsögulegt upphaf Rómar
-
Aðalgrein: Stofnun Rómar
Sú saga var sögð til forna að Róm hefði verið stofnuð þann 21. apríl árið 753 f.Kr. af tvíburunum Rómúlusi og Remusi, sem voru afkomendur Eneasar frá Tróju. Er afi þeirra var konungur í Latíum hrifsaði bróðir hans af honum völdin en dóttir konungsins hafði þá alið tvo syni, Rómúlus og Remus. Afabróðir þeirra, sem var nú við völd, óttaðist að drengirnir myndu ná völdunum af sér aftur og ákvað því að þeim skyldi drekkt í ánni Tíber. Drengirnir drukknuðu þó ekki heldur flutu þeir að árbakka þar sem úlfynja nokkur fann þá og bjargaði þeim.[1] Hún nærði drengina en er þeir komust á aldur sneru þeir aftur til að ná völdunum af ólögmætum kóngi.
Rómúlus drap síðar bróður sinni er þeir deildu um hvor þeirra ætti að hljóta konungstign. Borgina skorti konur en sagan hermir íbúarnir hafi brugðið á það ráð að bjóða nágrönnum sínum Sabínum til veislu en hafi svo stolið ungmeyjum þeirra. Þannig hafi Rómverjar og Sabínar að endingu orðið að einni þjóð.
Um goðsögulegt upphaf Rómar má lesa hjá ýmsum fornum höfundum, m.a. hjá Lívíusi.[2] Sagan um Eneas frá Tróju, forföður Rómúlusar og Remusar, sem kom til Latíum og stofnaði þar konungsríki er sennilega frægust úr Eneasarkviðu Virgils.
[breyta] Rómverska konungdæmið
-
Aðalgrein: Rómverska konungdæmið
Róm óx út frá byggð umhverfis vað yfir ána Tíber, þar sem mættust verslunarleiðir. Fornleifafræðilegar rannsóknir benda til þess að Róm hafi sennilega verið stofnuð einhvern tímann um á 9. eða um miðja 8. öld f.Kr. af fólki frá tveimur ítölskum þjóðflokkum, Latínum og Sabínum, á Palatín-, Kapítól- og Quirinalhæðum.
Etrúrar, sem höfðu áður numið land fyrir norðan Latíum, virðast hafa náð pólitískum völdum á svæðinu seint á 7. öld f.Kr. og mynduðu ráðandi yfirstétt. Etrúrar virðast aftur á móti hafa glatað völdum sínum á þessu svæði seint á 6. öld f.Kr. og Latínar og Sabínar, sem stofnuðu borgina, virðast þá hafa endurskilgreint stjórnkerfi borgarinnar með því að stofna lýðveldi, þar sem miklu meiri hömlur voru á getu valdhafanna til að beita valdi sínu.
[breyta] Rómverska lýðveldið
-
Aðalgrein: Rómverska lýðveldið
Rómverska lýðveldið var stofnað um 509 f.Kr., samkvæmt því sem seinni tíma höfundar á borð við Lívíus segja, eftir að Tarquinius drambláti, síðasti konungur Rómar, hafði verið hrakinn frá völdum. Rómverjar ákváðu þá að koma á kerfi þar sem valdhafarnir voru kjörnir í kosningum. Enn fremur voru ýmsar ráðgjafasamkundur og þing stofnaðar. Mikilvægustu embættismennirnir voru ræðismenn („konsúlar“), sem voru tveir og kjörnir til eins árs í senn. Þeir fóru með framkvæmdavaldið í formi imperium eða herstjórnar. Ræðismennirnir kepptu við öldungaráðið, sem var upphaflega ráðgjafasamkunda aðalsins, eða „patríseia“, en óx bæði að stærð og völdum er fram liðu stundir. Meðal annarra embættismanna lýðveldisins má nefna dómara (praetor), edíla og gjaldkera (quaestor). Í upphafi gátu einungis aðalsmenn gegnt embættum en seinna gat almúgafólk, eða plebeiar, einnig gegnt embættum.[3]
Rómverjar náðu hægt og bítandi völdum yfir öllum öðrum þjóðum á Ítalíu-skaganum, þar á meðal Etrúrum. Síðasta hindrunin í vegi fyrir algerum yfirráðum Rómverja á Ítalíu var gríska nýlendan Tarentum, sem leitaði aðstoðar hjá Pyrrhusi konungi frá Epírus árið 282 f.Kr., en mótstaðan var til einskis. Rómverjar tryggðu yfirráð sín með því að stofna eigin nýlendur á mikilvægum stöðum og héldu stöðugri stjórn sinni á svæðinu.
Á síðari hluta 3. aldar f.Kr. kom til átaka milli Rómar og Karþagó í fyrsta púnverska stríðinu af þremur. Í kjölfarið náði Róm tryggri fótfestu utan Ítalíu-skagans í fyrsta sinn, fyrst á Sikiley og Spáni en seinna víða annars staðar. Róm breyttist í stórveldi. Eftir sigur á Makedóníu og Selevkídaríkinu rétt fyrir miðja 2. öld f.Kr. urðu Rómverjar valdamesta þjóðin við Miðjarðarhafið.
Yfirráð yfir fjarlægum þjóðum leiddi til deilna í Róm. Öldungaráðsmenn urðu ríkir á kostnað skattlandanna en hermenn, sem voru flestir smábændur, voru að heiman lengur og gátu ekki viðhaldið landi sínu. Enn fremur var æ meira um ódýrt vinnuafl í formi erlendra þræla sem vinnandi stéttum gekk erfiðlega að keppa við. Hagnaður af herfangi, kaupmennska í nýju skattlöndunum og skattlagning skóp ný tækifæri meðal lægri stétta en ríkir kaupmenn mynduðu nýja millistétt, riddarastétt. Riddarastéttin hafði meira fé milli handanna en var enn talin til plebeia og hafði þess vegna mjög takmörkuð pólitísk völd. Öldungaráðið kom ítrekað í veg fyrir mikilvægar umbætur í jarðamálum og neitaði að gefa riddarastéttinni eftir nein völd. Sumir öldungaráðsmenn komu sér upp sveitum ólátabelgja úr röðum atvinnulausra fátæklinga, sem þeir notuðu til að hrella pólitíska andstæðinga sína og hafa áhrif á niðurstöður kosninga. Ástandið var sem verst seint á 2. öld f.Kr. á tímum Gracchusarbræðra, þeirra Gaiusar Gracchusar og Tíberíusar Gracchusar, sem reyndu að setja lög um endurskiptingu jarðnæðis í ríkiseigu handa plebeium. Báðir voru drepnir en öldungaráðið féllst um síðir á sumar af tillögum þeirra og reyndi þannig að lægja óánægjuöldur meðal lægri stéttanna.
Bandamannastríðið svonefnda braust út árið 91 f.Kr. þegar bandamenn Rómverja á Ítalíuskaganum fengu ekki borgararéttindi. Það stóð til ársins 88 f.Kr.. Endurskipulagning Gaiusar Mariusar á rómverska hernum varð til þess að hermenn sýndu oft herforingja sínum meiri meiri tryggð en borginni. Valdamiklir herforingjar gátu náð kverkataki á bæði öldungaráðinu og borginni. Þetta leiddi til borgarastríðs milli Mariusar og Súllu sem endaði með einveldistíð Súllu 81-79 f.Kr.[4]
Um miðja 1. öld f.Kr. mynduðu þeir Júlíus Caesar, Pompeius og Crassus með sér leynilegt bandalag um stjórn ríkisins, hið svonefnda fyrra þremenningasamband. Þegar Caesar hafði náð Gallíu undir rómversk yfirráð leiddi árekstur milli hans og öldungaráðsins til annars borgarastríðs, þar sem Pompeius stjórnaði herjum öldungaráðsins. Caesar hafði sigur og var gerður einvaldur (dictator) til lífstíðar.[5] Árið 44 f.Kr. var Caesar ráðinn af dögum af hópi öldungaráðsmanna sem voru mótfallnir einveldi Caesars og vildu koma á löglegri stjórn að nýju. Það mistókst en í kjölfarið varð til síðara þremenningasambandið með samkomulagi milli Oktavíanusar, erfingja Caesars, og tveggja fyrrum stuðningsmanna Caesars, Marcusar Antoniusar og Lepidusar og skiptu þeir með sér völdunum. Þetta bandalag leystist fljótt upp og varð til þess að Oktavíanur og Marcus Antonius kepptust um völd. Þegar skarst í odda með þeim sigraði Oktavíanus Marcus Antonius og Kleópötru Egyptalandsdrottningu í orrustunni við Actíum árið 31 f.Kr.
Í kjölfarið varð Oktavíanus óumdeildur valdhafi Rómar, og þótt að nafninu til hafi hann einungis gegnt ýmsum embættum rómverska lýðveldisins var hann þó í raun nokkurs konar einvaldur allt til æviloka. Hann hélt völdum í yfir fjóra áratugi og mótaði á þeim tíma vald keisarans. Venjan er að telja Oktavíanus fyrsta keisarann og miða upphaf keisaratíðar hans við árið 27 f.Kr. er samkomulag náðist milli hans og öldungaráðsins um völd hans en öldungaráðið veitti honum að því tilefni virðingarheitið Ágústus.
[breyta] Keisaratíminn
-
Aðalgrein: Rómverska keisaradæmið
Þegar Ágústus hafði sigrað andstæðinga sína voru völd hans nánast ótakmörkuð enda þótt hann gætti þess vandlega að viðhalda stjórnarformi lýðveldisins í orði kveðnu. Eftirmaður hans, Tíberíus, tók við völdunum án átaka. Þannig festist Júlíska-cládíska ættin í sessi sem valdhafar og hélt þeirri stöðu þar til Neró lést árið 68. Útþensla Rómaveldis hélt áfram og ríkið stóð föstum fótum þrátt fyrir að til valda kæmust keisarar sem voru álitnir spilltir (til dæmis Caligula og e.t.v. einnig Neró). Eftir dauða Nerós var stuttur óvissutími í rómverskum stjórnmálum og á einu ári komust fjórir keisarar til valda. Að lokum tók þó við stjórn flavísku ættarinnar. Flavíska ættin fór með völdin í Róm til ársins 96 en þá tók við tími „góðu keisaranna fimm“ sem varði til ársins 180. Á þessum tíma var Rómaveldi stærst og efnahagsleg og menningarleg áhrif þess náðu hámarki. Ríkinu var hvorki ógnað að utan né innan.
Árin 193 til 235 ríkti severíska ættin og nokkrir vanhæfir keisarar komust til valda, þ.á m. Elagabalus. Herinn hafði æ meiri áhrif á val nýrra keisara og það leiddi til hnignunarskeiðs sem oft er kallað 3. aldar kreppan. Kreppunni lauk þegar Diocletianus komst til valda. Árið 293 skipti hann Rómaveldi í austur- og vesturhluta og kom á fjórveldisstjórn þar sem tveir keisarar voru við völd í hvorum hluta ríkisins. Þessir keisarar börðust oft um völdin sín á milli. Árið 330 stofnaði Konstantínus mikli höfuðborg Austrómverska ríkisins í Býzantíon en frá árinu 395 var ríkinu skipt fyrir fullt og allt í Vestrómverska ríkið og Austrómverska ríkið (sem var síðar nefnt Býsansríkið).
Vestrómverska ríkið átti stöðugt í vök að verjast gegn innrásum barbara. Hæg hnignum Rómaveldis hélt áfram öldum saman. Á endanum héldu barbararnir Rómarborg í herkví en þeim hafði verið lofað land. Þeir ætluðu að koma í veg fyrir að fólk kæmist til eða frá borginni þar til þeir fengju landið sem þeim var lofað. Eftir að hafa verið sviknir nokkrum sinnum jókst þeim reiðin og þeir hertóku borgina. Árið 410 fóru Vísigotar ránshendi um borgina og 4. september árið 476 neyddi germanski herforinginn Odoacer síðasta vestrómverska keisarann, Rómúlus Ágústus, í útlegð. Þar með lauk um 1200 ára langri sögu Rómaveldis í vestri.
Austrómverska ríkið hélt velli mun lengur en féll einnig vegna innrásarherja. Arabískir þjóðflokkar náðu undir sig ríkustu landsvæðum ríkisins, þ.á m. þeim sem Justinianus hafði náð aftur. Rómarborg var sjálf undir yfirráðum innrásarherja. Árið 1000 náði Austrómverska ríkið hátindi sínum: Basileios II lagði Búlgaríu og Armeníu undir Austrómverska ríkið á ný og menning og verslun voru í blóma. En útþenslan var stöðvuð árið 1071 í orrustunni um Manzikert. Í kjölfarið fylgdi skeið mikillar hnignunar. Í nokkrar aldir ríktu óeirðir innanlands og innrásir Tyrkja leiddu að lokum til hörmunga fjórðu krossferðarinnar. Í kjölfar innrásarinnar í Konstantínópel árið 1204 tók ríkið að leysast upp. Þegar borginni var náð á ný var ríkið lítið annað en grískt ríki við strönd Eyjahafs. Mehmet II Súltán Tyrkja, vildi ráða niðurlögum Austrómverska ríkisins og gerði það árið 1453 þegar Konstantínópel féll fyrir her hans.
[breyta] Samfélag
Lífið í Rómaveldi snerist um höfuðborgina, Róm. Þar var miðpunktur stjórnmála og alls menningarlífs. Í borginni var mikill fjöldi minnisvarða og stórra mannvirkja á borð við hringleikahúsið Colosseum, Pantheon og Títusarbogann. Þar voru brunnar með fersku drykkjarvatni sem var leitt inn í borgina með vatnsleiðslum sem gátu verið hundruð kílómetra langar. Þar voru leikhús, baðhús, leikfimihús, bókasöfn, verslanir og markaðstorg. Í borginni var einnig skólplagnakerfi. Íbúðarhús voru ýmis fjölbýlishús eða einbýlishús, jafnvel risavaxnar hallir. Í höfuðborginni sjálfri voru hallir keisaranna á Palatínhæð glæsilegri en aðrar hallir. Miðstéttin og almúginn bjó við krappari kjör í miðborginni. Íbúðir voru litlar, stundum í blokkum.
Rómaborg var stærsta borg heimsveldisins en íbúar eru taldir hafa verið um ein milljón (nokkurn veginn jafn stór og London snemma á 19. öld, sem þá var stærsta borg heims). Borgin var hávaðasöm og Júlíus Caesar lagði eitt sinn til að umferð hestvagna að næturlagi yrði bönnuð. Talið er að allt frá 20% til 40% íbúa Rómaveldis hafi búið í borgum með fleiri en 10.000 íbúa víða um heimsveldið. Flestar borgir höfðu torg, hof og önnur mannvirki eins og Róm en færri og smærri í sniðum.
[breyta] Menning
[breyta] Bókmenntir og listir
Latneskar bókmenntir voru frá upphafi undir miklum áhrifum frá grískum bókmenntum.[6] Meðal elstu bókmennta Rómverja eru þýðngar á grískum gamanleikjum. Rómverjar þáðu einnig í arf frá Grikkjum ýmsa bragarhætti og bókmenntagreinar: gamanleiki, harmleiki, sagnaritun, söguljóð, lýrískan kveðskap.
Rómversk heimspeki var ekki undir minni áhrifum frá grískri heimspeki. Vinsælustu heimspekistefnurnar í Róm voru stóuspeki, epikúrismi og akademísk heimspeki (eða platonismi).
Rómversk tónlist byggði einnig mjög á grískri tónlist og var mikilvæg á öllum sviðum rómversks samfélags. Í rómverska hernum voru notuð blásturshljóðfæri til að gefa ýmsar skipanir. Tónlist var leikin í hringleikahúsum milli bardaga, í baðhúsum og víðar. Einnig var leikið á hljóðfæri við trúarlegar athafnir, svo sem við fórnir.
Í höggmyndalist var í fyrstu lögð áhersla á að sýna unglega fegurð og klassísk hlutföll en síðar varð til raunhyggja í höggmyndalist. Á 2. öld e.Kr. komst í tísku að sýna hár- og skeggtísku og farið var að höggva dýpra í marmarann.
[breyta] Neðanmálsgreinar
- ↑ Þannig er sagan venjulega sögð. Á latínu merkir orðið lupa sem þýðir „úlfynja“ einnig „vændiskona“.
- ↑ Sjá, Livíus, Ab Urbe Condita (= Frá stofnun borgarinnar), I.
- ↑ Lívíus, Ab Urbe Condita (= Frá stofnun borgarinnar), II.
- ↑ Sjá Scullard (1982) kafla I-IV.
- ↑ Sjá Scullard (1982) kafla VI-VII.
- ↑ Um grísk áhrif í rómverskum bókmenntum, sjá m.a. Geir Þ. Þórarinsson, „Hvaða áhrif hafði grísk menning á hina rómversku?“, Vísindavefurinn 8.11.2005. (Skoðað 4.8.2007).
[breyta] Heimildir og frekari fróðleikur
- Boardman, J., Griffin, J. og Murray, O. (ritstj.), The Oxford History of the Classical World (Oxford: Oxford University Press, 1986).
- Braund, Susanna Morton, Latin Literature (London: Routledge, 2002).
- Conte, Gian Biagio, Latin Literature: A History. Joseph B. Solodow (þýð.) (Baltimore: Johns Hopkins University Press, 1994).
- Cowell, F.R., Life in Ancient Rome (New York: Perigee, 1980).
- Ferrill, Arther, The Fall of the Roman Empire: The Military Explanation (London: Thames and Hudson, 1986).
- Frank, Tenney, Life and Literature in the Roman Republic (Los Angeles: University of California Press, 1930).
- Hadas, Moses (ritstj.), A History of Rome from its origins to 529 A.D. as told by the Roman historians (Gloucester, Mass.: Peter Smith, 1976).
- Hardy, W.G., The Greek and Roman Worlds (Cambridge, Mass.: Schenkman Publishing, 1962).
- Morford, Mark, The Roman Philosophers: From the time of Cato the Censor to the death of Marcus Aurelius (Routledge, 2002).
- Ogilve, R.M., The Romans and their Gods in the Age of Augustus (New York: W.W. Norton & Company, 1969).
- Scullard, Howard Hayes, From the Gracchi to Nero 5. útg. (London: Routledge, 1982).
- Sedley, David (ritstj.), The Cambridge Companion to Greek and Roman Philosophy (Cambridge: Cambridge University Press, 2003).
- Sinnigen, William G. og Boak, Arthur E.R., A History of Rome to A.D. 565 6. útg. (New York: Macmillan, 1977).
- Treggiari, Susan, Roman Social History (London: Routledge, 2002).
- Wolff, Hans Julius, Roman Law: An Historical Introduction (Oklahoma: University of Oklahoma Press, 1951).
[breyta] Tengt efni
[breyta] Tenglar
- Vísindavefurinn: „Hvenær ríktu Rómverjar?“
- Vísindavefurinn: „Hvað réðu Rómverjar yfir mörgum löndum þegar veldi þeirra var mest?“
- Vísindavefurinn: „Hvers vegna klofnaði Rómverska keisaradæmið í austur- og vesturhluta?“
- Vísindavefurinn: „Hvað getiði sagt mér um fall Rómaveldis?“
- Vísindavefurinn: „Hvaða áhrif hafði grísk menning á hina rómversku?“
- Vísindavefurinn: „Voru rómverskir borgarar dæmdir til krossfestingar eða eingöngu útlendingar?“
Rómaveldi | breyta |
Stofnun Rómar | Rómverska konungdæmið | Lýðveldistíminn | Keisaratíminn | Síðfornöld | |
Vestrómverska keisaradæmið | Austrómverska keisaradæmið | |
Öldungaráðið | Rómarkeisari | Skattlönd |