Lifur
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lifur er kirtill sem þjónar margþættum tilgangi meðal dýra sem hana hafa. Í spendýrum er þetta stærsti kirtillinn. Hún vegur um 1,5 kg í mönnum og er staðsett rétt neðan við þind hægra megin í kviðarholi. Aðalstarf hennar er að halda blóðsykurjafnvægi en glýkógenbirgðir líkamans er þar að finna. Hún ýmist myndar glýkógen til geymslu úr einsykrum eða losar einsykrur úr glýkógenbirgðunum.
Lifrin sér einnig um að mynda fitu og að brenna hana. Hún myndar einnig gall sem er nauðsynlegt fyrir meltingu fitu. Lifrin myndar margar gerðir prótína og er forðabúr fituleysinna vítamína. Lifrin gegnir einnig lykilhlutverki í losun úrgangsefna með því að gera þau óvirk með einhverjum hætti. Vegna þess hve mikin þátt hún á í hreinsun blóðs, geymslu næringarefna og úrvinnslu er hún afar blóðrík. Inn í hana liggur tvöföld blóðrás, annars vegar lifrarslagæð, sem flytur til hennar blóð frá hjartanu, og hins vegar lifrarportæð, sem flytur blóð frá görnunum. Þessar æðar sameinast í sérstæðum háræðum sem nefnast stokkháræðar og veita blóði inn í lifrina.Lifrin býr til gall sem sem eyðir skaðlegum efnum t.d. lyfjum, vínanda,(alkahól).