Mæling
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mæling er mat á lengd, þyngd, rúmmáli eða öðrum eiginleikum, í samanburði við staðlaða einingu af sama tagi, sem er þá grunneining eða mælieining. Niðurstaða mælingarinnar verður þá tiltekið margfeldi af grunneiningunni. Til dæmis er vegalengd oft táknuð sem margfeldi af metrum eða kílómetrum.
Mæling er alla jafna aðgreind frá talningu. Niðurstaða mælingar er rauntala, og er aldrei algerlega nákvæm. Niðurstaða talningar er náttúruleg tala og getur verið algerlega nákvæm. Til dæmis getum við vitað að það eru nákvæmlega 12 egg í eggjabakka, en við getum aldrei vitað nákvæmlega hvað þau eru þung.
Til að gera mælingar einfaldari (og í sumum tilfellum mögulegar), eru notuð ýmis mælitæki, svo sem hraðamælar, hitamælar, vogir og voltmælar. Yfirleitt er nauðsynlegt að stilla öll flóknari mælitæki með hliðsjón af þeim grunneiningum sem þau byggja mælingar sínar á.
Ýmsir hafa reynt að skilgreina mælingar í stuttu máli, svo sem William Shockley, sem lýsti hugtakinu þannig: Mæling er samanburður við staðal.