Kerið
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kerið er gíghóll í Grímsnesi. Það er 270 m langt og um 170 m breitt. Gígurinn er 55 m djúpur og niðri í honum er tjörn. Dýpt tjarnarinnar fer eftir grunnvatnsstöðu, hún er 7 til 14 m djúp.
Kerið var áður talið sprengigígur en núna er talið að það sé niðurfall eftir hrun gjallgígs. Talið er að þessi gjallgígur hafi verið einn af mörgum gjallgígum sem gusu þarna fyrir 5000 til 6000 árum og mynduðu Grímsneshraun.
Gosið sem myndaði Kerið hefur tekið nokkurn tíma. Rauði liturinn á gjallinu stafar af oxun járnsins í kvikunni (hematít).