Karl Lachmann
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Karl Konrad Friedrich Wilhelm Lachmann (4. mars 1793 - 13. mars 1851) var þýskur fornfræðingur, textafræðingur og bókmenntarýnir. Hann kenndi klassíska textafræði við háskólann í Königsberg og síðar við Humboldt-háskólann í Berlín.
Lachmann hélt því fram að Ilíonskviða Hómers væri samin úr a.m.k. 16 öðrum kvæðum sem hefðu verið sett saman í eitt kvæði og svo aukið vð hana. Kenningar hans höfðu töluverð áhrif á hómersrannsóknir á 19. öld en eru nú taldar úreltar.
Lachmann ritstýrði einnig útgáfu á texta Lucretiusar (1850). Hann gat sýnt hvernig öll þrjú helstu handritin væru komin af sameiginlegri fyrirmynd, sem var 302 blaðsíður með 26 línum á síðu. Hann sýndi enn fremur fram á að sameiginleg fyrirmynd varðveittra handrita hefði verið ritað með lágstöfum og að fyrirmynd þess hefði verið 4. eða 5. aldar handrit með hástafaletri. Lachmann ritstýrði einnig textum Propertiusar (1816); Catullusar (1829); Tibullusar (1829); Genesiusar (1834); Terentianusar Maurusar (1836); Babriusar (1845); og Avianusar (1845) auk annarra höfunda. Hann þýddi einnig sonnetur Shakespeares (1820) og leikritið Macbeth (1829) á þýsku.