Herbert Spencer
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Herbert Spencer (fæddur 27. apríl 1820, látinn 8. desember 1903) var enskur félagsfræðingur og heimspekingur.
Spencer taldi, líkt og Auguste Comte (1798-1857), að félagsfræðin þyrfti að glíma við tvö vandamál það er að segja varðandi stöðugleika (eða óbreytt ástand) og þróun. Bæði Comte og Spencer trúðu því að siðmenningin og allt sem henni viðvék ætti að vera viðfangsefni félagsfræðinnar. Verk þeirra beggja snerust að mestu leyti um það að lýsa upphafi og þróun siðmenningarinnar og helstu félagslegu stofnunum hennar. Herbert Spencer gaf reyndar út bók 1864 þar sem hann gagnrýndi ýmislegst í hugmyndum Comte.
Spencer líkti samfélaginu við lifandi veru, þegar hann ræddi um stöðugleikann, þar sem samstarf einstakra líkamshluta, svo sem lunga og hjarta heldur henni á lífi. Í samfélaginu voru til staðar sambærilegir þættir sem tryggðu stöðugleika samfélagsins, svo sem fjölskyldan, skólakerfið og hagkerfið. Bæði lífveran og samfélagið fæddust, lifðu og myndu deyja.
Þegar hann ræddi um breytingar (eða hreyfingaraflið) sótti hann líkingu í þróunarkenningu Charles Darwin, sem árið 1859 gaf út bókina Uppruni tegunda (e. On the Origin of Species). Þar sýnir hann fram á að allar tegundir lífvera eru í stöðugri þróun. Darwin rakti þróun mannsins til upphafs lífsins á jörðinni. Kenning hans gengur út að allar lífverur á jörðinni ala af sér fleiri afkomendur en umhverfið getur séð farborða. Sumir einstaklingar falla betur að umhverfinu sem þeir fæðast í en aðrir og hafa því meiri lífslíkur. Það eru því hæfustu einstaklingar tiltekinnar dýrategundar sem komast af og ná að fjölga sér í þessu umhverfi. Það kallar hann náttúruval. Spencer taldi þetta eiga við mannlegt samfélag, það er að segja að það væri óhjákvæmilegt að hæfustu einstaklingar samfélagsins sem næðu mestum árangri innan þess myndu lifa af. Ein öfgafullasta túlkun á þessum félagslega darwinisma Spencers var kenning Adolfs Hitler um að aríar væru hæfastir til þess að stjórna mannlegu samfélagi.
Herbert Spencer taldi að önnur samfélög myndu þróast á líkan veg og vesturlönd höfðu gert með svo góðum árangri, það er að segja úr einföldu samfélagi í flókið, eins og það iðnaðarsamfélag sem hann þekkti. Þessi þróun tók vesturlönd, að hans mati. tíuþúsund ár.
Spencer taldi að öll skynsamleg þróun væri framför og var því á móti félagslegum umbótum. Hann vildi að þróunin hafði sinn gang. Ein frægasta tilvitnun hans er „Sérhver maður er frjáls að gera það sem hann vill svo fremi hann hindri ekki aðra í að hafa það sama frelsi“. Spencer taldi að í raunveruleikanum væri þetta ekki svo. Hjá dýrunum er það eðlilega ekki þannig háttað en Spencer taldi að þannig ætti skipulagið að vera í skipulögðu samfélagi þar sem tiltekin siðfræðileg lögmál giltu.
Að hans mati þróaðist iðnaðarsamfélagið í jákvæða átt þrátt fyrir tímabundna erfiðleika. Hann taldi þörf fyrir boð og bönn og umfangsmikið og afskiptasamt ríkisvald færi minnkandi. Hann var sannfærður um að ef afskiptum ríkisvaldsins yrði létt myndi regla í samskiptum manna koma af sjálfum sér. Þegar jafnvægi væri svo komið á í samfélaginu ríkti þar friður, frelsi og samhyggð. Eitt þekktasta rit hans um þetta efni er bókin The Man versus the State, sem kom út árið 1884.
Herbert Spencer dó þann 8. desember 1903 þá áttatíu og þriggja ára að aldri.[[