Gamla bíó
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gamla bíó er fyrrum kvikmyndahús og núverandi óperuhús sem stendur við Ingólfsstræti í miðborg Reykjavíkur. Húsið var reist yfir starfsemi „gamla bíós“, Reykjavíkur Biograftheater, af Peter Petersen árið 1927 og tók við af Fjalakettinum. Petersen innréttaði íbúð fyrir sjálfan sig á efri hæð hússins. Fyrsta kvikmyndin sem var sýnd þar var Ben Húr með Ramon Novarro í aðalhlutverki 2. ágúst 1927. Upphaflega tók salurinn 602 í sæti en það minnkaði í 479 þegar húsinu var breytt og sviðið stækkað til að mæta þörfum óperunnar.
Húsið var rekið sem kvikmyndahús til ársins 1980 þegar Íslenska óperan keypti það undir óperusýningar. Fyrsta óperan sem var frumsýnd í húsinu var Sígaunabaróninn eftir Johann Strauss 9. janúar 1982. Húsið hefur oft hýst leiksýningar og tónleika auk óperusýninga.