Þorri
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
- Þessi grein fjallar um mánuðinn Þorra. Einnig er til mannsnafnið Þorri.
Þorri er fjórði mánuður vetrar í gamla norræna tímatalinu. Þorri hefst í þrettándu viku vetrar (18.-24. janúar miðað við Gregoríanska tímatalið) og alltaf á föstudegi.
Fyrsti dagur þorra er nefndur bóndadagur en þann dag var sú hefð að bóndinn hoppaði í kringum bæinn á nærhaldinu einu fata. Einnig var hefð að húsmóðirin færi út kvöldið áður og byði þorranum inn í bæ. Til eru heimildir um að betri matur hafi verið gefinn fyrstu daga þorra og góu, en nú hefur sú hefð komist á að hjón gefi hvort öðru blóm þessa daga. Síðasti dagur þorra er nefndur þorraþræll.
Þorri er nefndur í heimildum frá miðöldum sem persónugervingur vetrarins og þar er einnig minnst á þorrablót, en ekki er vitað um hvað þau snerust. Þorrablót eru svo tekin upp sem veislur „að fornum sið“ undir lok 19. aldar.
Svo segir í Fornaldarsögum Norðurlanda, „Frá Fornjóti og hans ættmennum“:
- Fornjótr hét maðr. Hann átti þrjá sonu; var einn Hlér, annarr Logi, þriði Kári. Hann réð fyrir vindum, en Logi fyrir eldi, Hlér fyrir sjó. Kári var faðir Jökuls, föður Snæs konungs, en börn Snæs konungs váru þau Þorri, Fönn, Drífa ok Mjöll. Þorri var konungr ágætr. Hann réð fyrir Gotlandi, Kænlandi ok Finnlandi. Hann blótuðu Kænir til þess, at snjóva gerði ok væri skíðfæri gott. Þat er ár þeira. Þat blót skyldi vera at miðjum vetri, ok var þaðan af kallaðr Þorra mánaðr.
- Þorri konungr átti þrjú börn. Synir hans hétu Nórr ok Górr, en Gói dóttir. Gói hvarf á brott, ok gerði Þorri blót mánuði síðar en hann var vanr at blóta, ok kölluðu þeir síðan þann mánað, er þá hófst, Gói. Þeir Nórr ok Górr leituðu systur sinnar. Nórr átti bardaga stóra fyrir vestan Kjölu, ok fellu fyrir honum þeir konungar, er svá heita: Véi ok Vei, Hundingr ok Hemingr, ok lagði Nórr þat land undir sik allt til sjóvar. Þeir bræðr fundust í þeim firði, er nú er kallaðr Nórafjörðr. Nórr fór þaðan upp á Kjölu ok kom þar, sem heita Úlfamóar, þaðan fór hann um Eystri-Dali ok síðan í Vermaland ok með vatni því, er Vænir heitir, ok svá til sjóvar. Þetta land allt lagði Nórr undir sik, allt fyrir vestan þessi takmörk. Þetta land er nú kallaðr Noregr.
[breyta] Tengt efni
- Hversu Noregr Byggðist frá heimskringla.no.
- Fundinn Noregr frá heimskringla.no.
- Torre och Gói i de isländska källorna frá heimskringla.no.
- Om kong Torre og torreblot før og nå frá heimskringla.no.
- Frá Fornjóti ok hans ættmönnum hjá Netútgáfunni.
Mánuðirnir samkvæmt norræna tímatalinu |
---|
Gormánuður | Ýlir | Mörsugur | Þorri | Góa | Einmánuður | Harpa | Skerpla | Sólmánuður | Heyannir | Tvímánuður | Haustmánuður |