Ljósapera
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ljósapera er venjulega gerð úr gagnsæju, möttu eða hvítu hylki sem er oftast peru- eða pípulaga, með glóþræði eða fyllt gasi, sem glóir þegar rafstraumi er hleypt á hana og lýsir með því upp umhverfi sitt. Þróun ljósaperunnar tók allnokkra áratugi og komu margir þar við sögu, en oftast er uppgötvun ljósaperunnar tileinkuð Thomas Alva Edison, bandarískum uppfinningamanni, og ársett 1879. Edison fann þó í raun ekki upp ljósaperuna sem slíka, heldur endurbætti aðferðir og efnisval annarra þannig að útkoman varð pera sem gat enst dágóðan tíma áður en þráður hennar brann. Þannig gat hann gert ljósaperuna að seljanlegri markaðsvöru, en það hafði engum tekist áður. Fyrsta borg veraldar, sem lýst var upp með rafmagni í stað gass var New York (neðsti hluti Manhattan) og stóð Thomas Edison fyrir því. Fyrsta rafstöðin tók til starfa þann 4. september 1882 og stóð hún við Pearl Street þar í borg.
[breyta] Mikilvægir menn í sögu raflýsingar
- Sir Humphrey Davy, enskur, hann smíðaði fyrsta kolbogaljósið 1801. Í því var ekki pera, heldur var kolbogaljósið óvarið.
- A. E. Becquerel, franskur, setti fram kenningar um að hægt væri að fá kvikasilfursgufu til að glóa, væri hún undir rafspennu. Slíkar perur kallast nú flúorperur.
- Sir Joseph Swan, enskur, og Thomas Edison, bandarískur, smíðuðu fyrstu glóþráðarlampana um 1870 og upp úr því.
- Charles F. Brush, bandarískur, bjó til fyrsta kolbogalampann sem gat hentað til götulýsingar, árið 1879.
- Georges Claude, franskur, kom fram með neonperur 1911.
- Irving Langmuir, bandarískur, innleiddi wolframþráð árið 1915.