Forsögulega tímabilið
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Forsögulega tímabilið á við tímann fyrir ritaðar heimildir. Það er hægt að líta svo á að forsagan byrji í raun á sama tíma og alheimurinn varð til, en hvenær henni líkur fer eftir heimshlutum (þ.e.a.s. þegar skrifmál verður fyrst til á hverjum stað eða þegar ritaðar heimildir verða fyrst til um tiltekið menningarsvæði). Forsögu líkur almennt séð í Egyptalandi um 3500 f.Kr. á meðan því líkur ekki í Nýju Gíneu fyrr en um 1900 e.Kr.
Þar sem forsagan er, samkvæmt skilgreiningu, tíminn fyrir ritaðar heimildir, notast menn við gögn úr fornleifafræði og steingervingafræði og sögulegum málvísindum og samanburðarmálfræði (Sjá grein um frum-indóevrópsku). Verkfæri, skartgripir og mannvirki eru dæmi um það, sem notast er við til að gera skil á sögu manna fyrir komu ritmáls. Forsögulega tímabilinu er skipt upp í minni tímabil, notast er við sömu tímabilsheiti og í jarðfræði fyrir komu mannsins. Þá er tímabilunum skipt í steinöld, bronsöld og járnöld, en svo líkur forsögu og almenn saga mannkyns tekur við.