Fornöld
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fornöld er tímabil í mannkynssögunni sem nær frá upphafi sögulegs tíma, þ.e. frá þeim tíma sem til eru ritaðar heimildir um, og til miðalda. Tímabilið áður en sögulegur tími hófst kallast forsögulegur tími. Ritaðar heimildir komu ekki fram á sama tíma alls staðar og því lýkur forsögulegum tíma í raun ekki alls staðar samtímis.
Fyrstu rituðu heimildirnar eru fleygrúnir frá Súmer frá því 3000-3500 f.Kr. Því má segja að sögulegur tími hefjist fyrst þar.
Klassísk fornöld er hugtak sem er notað í fornaldarsögu Grikklands og Rómaveldis. Í Grikklandi er sá tími oftast miðaður við árið 776 f.Kr. þegar ólympíuleikarnir voru fyrst haldnir, enda þótt til séu töluvert eldri ritaðar heimildir á grísku. Í sögu Rómar er miðað við hefðbundið ártal fyrir stofnun borgarinnar 753 f.Kr., þrátt fyrir að ritaðar heimildir á latínu séu nokkru yngri.
Enda þótt deilt sé um hvenær fornöld eigi að teljast lokið er oftast miðað við fall Vestrómverska ríkisins sem venju samkvæmt er sagt hafa átt sér stað árið 476. Í sögu Austrómverska ríkisins mætti ef til vill miða endalok fornaldar við árið 640, en þá féll Alexandría í hendur Aröbum. Það tímabil sem nær yfir breytinguna frá fornöld til miðalda er síðfornöld, sem skarast að stórum hluta við ármiðaldir.
Hugtakið fornöld var fyrr á árum oft notað í sögu Íslands um tímabilið frá landnámsöld fram til loka þjóðveldisins, 1264, eða jafnvel fram um 1300. Þetta er elsti hluti Íslandssögunnar, auk þess sem þetta tímabil þótti vera nokkur hliðstæða við gullöld Grikkja og Rómverja, t.d. hvað bókmenntasköpun snertir. Í seinni tíð hafa sagnfræðingar farið að nota hugtakið miðaldir um þetta tímabil, enda fellur það undir miðaldir í sögu Evrópu.