Basilíka Krists konungs
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Basilíka Krists konungs, Landakotskirkja eða Kristskirkja er dómkirkja, það er embættiskirkja biskups kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Kirkjan er í vesturbæ Reykjavíkur í Landakoti.
Fyrstu kaþólsku prestarnir sem komu til Íslands eftir siðaskiptin voru Frakkarnir Bernard Bernard og Jean-Baptiste Baudoin. Þeir keyptu jörðina Landakot í Reykjavík og bjuggu í bóndabænum. Þeir byggðu litla kapellu við bæinn árið 1864. Nokkrum árum seinna var lítil timburkirkja reist við Túngötu, nálægt prestsetrinu í Landakoti. Kirkja þessi var helguð heilögu hjarta Jesú.
Eftir fyrri heimstyrjöldina fóru kaþólskir á Íslandi að ræða um nauðsyn þess að byggja nýja og stærri kirkju fyrir hinn vaxandi söfnuð. Ákveðið var að reisa kirkju í nýgotneskum stíl og var arkitektinum Guðjóni Samúelssyni falið að teikna hana. Kirkjan var vígð 23. júlí 1929 og var þá stærsta kirkja landsins.