Skúmhöttur
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skúmhöttur er fjallstindur á milli Loðmundarfjarðar og Borgarfjarðar eystri í Norður-Múlasýslu. Hann er 868 metra hár.
Skúmhöttur er úr líparíti, eða ljósgrýti, og er því bjartur yfirlitum. Fyrri liður nafnsins, „skúm“, getur þýtt ryk, dimma (húm) eða hula (skán), og vísar kannski til þess að á tindinum er dökkt líparítlag. En líklegra er þó að nafnið sé til komið vegna þess að stundum leika þokuhnoðrar um tindinn, og hylja hann sjónum, og er þá eins og fjallið sé með „myrkrahatt“.
Frá Skúmhetti ganga þrír Skúmhattardalir, einn norður til Borgarfjarðar eystri, annar austur til Húsavíkur og sá þriðji suðvestur til Hraundals í Loðmundarfirði. Vestan við Skúmhött er Skúmhattarskarð, áður fáfarin gönguleið til Borgarfjarðar.
Suður af Skúmhetti er eyðibýlið Seljamýri í Loðmundarfirði, og á sú jörð land norður á Skúmhött.