Málverk
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Málverk (til forna kallað pentmynd, (pent)skrift eða fái) er flötur sem hefur verið settur litum, annaðhvort með penslum eða öðrum verkfærum, jafnvel höndum. Flöturinn getur verið veggur, léreft, gler eða pappír o.s.frv. Málverk í listrænum tilgangi er samsetning sem líkist fyrirmyndinni eða er byggt upp af hinum ýmsu formum eða formleysum. Talað er um hlutbundna og óhlutbundna list. Hvortveggja getur verið gert eftir ákveðinni listastefnu (eða stefnuyfirlýsingu) til að tjá þá sýn eða hughrif sem listamaðurinn ætlar að framkalla. Með elstu málverkum sem vitað er um eru hellamálverkin í Grotte Chauvet í Frakklandi sem eru frá steinöld.
Sögnin að mála til forna var að steina (steint skip), skrifa (salurinn var skrifaður innan) eða fá (oft haft um rúnir), en málverk af manni var nefnt mannfái. Latneskættaða sögnin að penta var höfð um að mála á miðöldum, og þýskættaða sögnin að farfa, en farfi er t.d. nefndur í Íslendingasögunum. Altarismálverk hafa oft verið nefndar töflur (sbr. altaristafla).