Frumspekileg náttúruhyggja
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Frumspekileg náttúruhyggja er það heimspekilega viðhorf að náttúran sé allt sem til er og ekkert yfirnáttúrulegt sé til. Í heimspeki er þetta viðhorf stundum nefnt verufræðileg náttúruhyggja eða einfaldlega náttúruhyggja, en stundum heimspekileg náttúruhyggja til aðgreiningar frá aðferðafræðilegri náttúruhyggju.
[breyta] Skilgreining
Frumspekileg náttúruhyggja er oftast greind að frá aðferðafræðilegri náttúruhyggju sem vísar til hinnar löngu hefðar vísindalegrar aðferðar í vísindum, sem gengur út frá því að atburði í náttúrunni sé einungis hægt að útskýra með tilvísun til náttúrunnar, án þess að gera ráð fyrir tilvist einhvers yfirnáttúrulegs, og líta því gjarnan svo á að yfirnáttúrulegar skýringar á slíkum atburðum séu utan sviðs vísindanna. Frumspeki er sú grein heimspekinnar sem fæst við spurningar um hvort og í hvaða skilningi eitthvað er til. Frumspekileg náttúruhyggja er því viðhorf um hvað sé til, það er að segja heimur náttúrunnar; hún er það viðhorf að hið yfirnáttúrulega sé ekki til og felur því í sér guðleysi eða sterkt trúleysi. Aðferðafræði er á hinn bóginn einungis tæki til þess að gera eitthvað, í þessu tilviki - það er að segja, í vísindum - til að afla þekkingar. Frumspekileg náttúruhyggja er því það viðhorf að náttúran sé það eina sem til er en aðferðafræðileg náttúruhyggja felur í sér þá skoðun að af einhverjum sökum einungis sé hægt að rannsaka heim náttúrunnar, hvort sem svokallaðir yfirnáttúrulegir hlutir séu til eða ekki.
Líklega eru allir málsvarar frumspekilegrar náttúruhyggju hallir undir aðferðafræðilega náttúruhyggju (þótt vissulega sé mögulegt að telja - mótsagnarlaust - að ekkert yfirnáttúrulegt sé til en fallast samt á að gera ekki ráð fyrir náttúruhyggju sem vísindalegri aðferð). Hins vegar er ekki eins víst að allir málsvarar aðferðafræðilegrar náttúruhyggju séu einnig málsvarar frumspekilegrar náttúruhyggju.
[breyta] Afbrigði af frumspekilegri náttúruhyggju
Til eru mörg afbrigði af frumspekilegri náttúruhyggju en öll afbrigðin fela í sér að ef frumspekileg náttúruhyggja er sönn, þá eigi hvaðeina sem er hugrænt sér náttúrulegar orsakir.