Samar
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Samar er þjóðflokkur sem byggir Samaland (Sápmi) sem spannar yfir norðurhluta Svíþjóðar, Noregs, Finnlands og hluta af Kólaskaga í Rússlandi.
[breyta] Heiti
Samar nefndust áður fyrr Lappar. Orðið er sennilega af finnskum uppruna samanber finnsku orðin lappalainen (Sami) og Lappi (Lappland). Frumþýðing orðsins er hins vegar óþekkt þó ekki vanti ágiskanir. Elsta rituð heimild um notkun orðsins Lappi er á sænsku handriti frá 1596. Saxo Grammaticus notar orðið lapfenni í handriti frá 13. öld til að aðskilja þá hópa sem bjuggu við strönd (sem hann nefnid piscifenni) eða inni í landi. Flestir Samar álíta orðið Lappi vera niðurlægjandi og vilja ekki að það sé notað um þá.
Í íslenskum fornritum er ekki talað um lappa en hins vegar um finna (finnr) meðal annars í Landnámubók, Haralds sögu hins hárfagra, Ynglinga sögu og Örvar-Odds sögu. Flestir fræðimenn eru sammála um að þar sé átt við Sama. Rómverski fræðimaðurinn Tacitus skrifaði árið 98 um fólk á nyrsta hveli sem hann nefndi fenni á latínu, á sama hátt ritaði býsanski fræðimaðurinn Prokopios um árið 150 á grísku um φίννοι (finnoi), er álit flestra að þeir hafi átt þar við Sama þó sumir fræðimenn vilji draga það í efa og álíta þá skrifa um þann þjóðflokk sem á nútíma íslensku eru nefndir Finnar. Einnig eru fleiri miðaldaheimildir um Skriðfinna (scridefinnas, scritofinni, scricfinni) (sem einnig er notað af Prokopios, σκριϑίφινοι, sem samheiti fyrir finnoi) en að öllum líkindum voru Samar fyrstir til að nota skíði (að skríða).[1]
Orðið sami er komið úr samísku þar sem það er same, sapme, saemie eða sabme í eintölu eftir mállýsku (í fleirtölu sameh eða samek).[2]
[breyta] Neðanmálsgreinar
- ↑ Samernas historia, Sametinget. ISBN 91-630-7075-8
- ↑ Samerna - solens och vindens folk, Ájtte. ISBN 91-87636-09-0
[breyta] Tenglar
- Viðhorf til Sama í íslenskum fornritum; 1. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1996
- Fenja og menja; 2. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1996