Langisjór
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Langisjór er 27 km² stórt stöðuvatn í Vestur-Skaftafellssýslu, suðvestan við Tungnár- og Skaftárjökul. Sunnan við Langasjó er Sveinstindur en austan hans eru Fögrufjöll. Þau ganga víða með þverhníptum klettahöfðum fram í Langasjó. Langisjór er meðal tærustu fjallavatna á Íslandi, en nafn sitt dregur vatnið af lengd sinni, en það er um 20 km langt og 2 km breitt. Hvergi sér að Langasjó fyrr en komið er að honum.
Affall Langasjós rennur í Skaftá. Vegna þess hve afskekkt vatnið er fannst það ekki fyrr en á 19. öld.
[breyta] Virkjunaráform
Lengi vel áformaði Landsvirkjun að veita Skaftá í Langasjó og nýta vatnið í virkjanirnar á Tungnár og Þjórsár-svæðinu. Einnig var ætlunin með þessu að hefta sandburð í Skaftárhlaupum sem farin eru að ógna Eldhrauni. Enn virðist ráða óvissa um hvort af þessu verði. Umræðan um verndun Langasjávar var heit veturinn 2005/2006 eins og sjá má af umræðum á Alþingi. Sumir hafa þó haldið því fram að frá þessu var fallið þegar Kárahnjúkavirkjun var samþykkt.
[breyta] Heimildir
- Langisjór - nat.is. Skoðað 1. maí, 2006.
- Verndum Langasjó. Skoðað 1. maí, 2006.
- Alþingi 2005, Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu, 1. umræða. Skoðað 18. ágúst, 2006.
- Langisjór - Náttúruperla eða virkjanalón?. Skoðað 19. ágúst, 2006.