Forseti Íslands
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Forseti Íslands er þjóðhöfðingi og æðsti embættismaður Íslands. Embættið er einnig hið eina sem kosið er til með beinni kosningu. Það var stofnað um leið og Ísland varð lýðveldi þann 17. júní 1944 með gildistöku lýðveldisstjórnarskrárinnar en um embættið er fjallað í öðrum kafla hennar. Fimm einstaklingar hafa gegnt embættinu frá stofnun þess, núverandi forseti er Ólafur Ragnar Grímsson. Forseti hefur aðsetur á Bessastöðum.
Forsetinn telst samkvæmt stjórnarskrá handhafi framkvæmdavaldsins og einnig handhafi löggjafarvaldsins ásamt Alþingi. Hann lætur þó ráðherra framkvæma vald sitt og er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum.
Efnisyfirlit |
[breyta] Kjörgengi
Forsetaefni skal skv. stjórnarskránni og lögum um framboð og kjör forseta Íslands vera minnst 35 ára auk þess að uppfylla sömu skilyrði og gerð eru um kosningarétt til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu, en samkvæmt því þarf að eiga lögheimili á Íslandi til að eiga kosningarétt. Ekki er gerð krafa um trú forseta, þ.a. hann getur væntanlega staðið utan trúfélaga.
[breyta] Hlutverk forseta
- Þingsetning
- Staðfesting laga
- Nýársávarp
- Orðuveiting
- Móttaka og opinberar heimsóknir til erlendra þjóðhöfðingja
- Stjórnarmyndun (ef þingflokkar ná ekki saman um myndun ríkisstjórnar)
[breyta] Ímynd forseta
- Sameiningartákn þjóðarinnar
- „Öryggisventill“ gagnvart Alþingi
- Verndari íslenskrar menningar
- „Landkynning“
[breyta] Forsetar
Forseti | tók við embætti | Lausn frá embætti | Sat í | aldur í forsetatíð |
---|---|---|---|---|
Sveinn Björnsson | 17. júní 1944 | 25. janúar 1952✽ | 2.748 daga | 63 til 70 ára |
Ásgeir Ásgeirsson | 1. ágúst 1952 | 1. ágúst 1968 | 5.844 daga | 58 til 74 ára |
Kristján Eldjárn | 1. ágúst 1968 | 1. ágúst 1980 | 4.383 daga | 51 til 63 ára |
Vigdís Finnbogadóttir | 1. ágúst 1980 | 1. ágúst 1996 | 5.844 daga | 50 til 66 ára |
Ólafur Ragnar Grímsson | 1. ágúst 1996 | Enn í embætti | 3.500 > daga | 53 ára |
✽ Sveinn Björnsson lést í embætti. Varahandhafar forsetavalds fóru með völd forseta fram að innsetningu Ásgeirs Ásgeirssonar í embættið þann 1. ágúst sama ár.
[breyta] Synjun forseta á staðfestingu frumvarps til laga um fjölmiðla 2004
Ólafur Ragnar Grímsson neitaði að staðfesta frumvarp að lögum um fjölmiðla (fjölmiðlafrumvarpið) árið 2004. Ákvörðunin var umdeild, en Alþingi tók í framhaldi frumvarpið af dagskrá, þ.a. ekki þótti nauðsynlegt að leggja það fyrir dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og gera bar skv. stjórnarskrá Íslands.
[breyta] Þátttaka forseta Íslands í Þróunarráði Indlands 2007
Ólafur Ragnar Grímsson hlaut nokkra gagnrýni fyrir að taka þátt í Þróunarráði Indlands, án þess að ráðfæra sig við forsætis- og utanríksráðherra. Þingforseti, Halldór Blöndal gagnrýndi forsetann opinberlega fyrir ákvörðunina.
[breyta] Viðtal við forseta Íslands í Silfri Egils 18. febrúar 2007
Í viðtali í Silfri Egils, 18. febrúar 2007, sagði Ólafur Ragnar Grímsson að forsetinn heyri ekki undir neitt ráðuneyti og nær væri að tala um að ráðuneytin heyri undir forseta ef menn vildu fara út í orðhengilshátt. Þessum ummælum var slegið upp í Morgunblaðinu daginn eftir. Björg Thorarensen, lagaprófessor segir að í stjórnsýslulegu tilliti fari forsætisráðuneytið með alla umsýslu sem varðar forsetaembættið og megi því segja að forsætisráðuneytið fari með málefni forsetans.