Íslenskar orkurannsóknir
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gerð: | Opinbert fyrirtæki |
Stofnað: | 1. júlí 2003 |
Staðsetning: | Grensásvegur 9, 108 Reykjavík |
Lykilmenn: | Guðrún Helga Brynleifsdóttir, stjórnarformaður, Ólafur G. Flóvenz, forstjóri |
Starfsemi: | Rannsóknir jarð- og orkuauðlinda |
Starfsmenn: | 80 |
Vefslóð: | www.isor.is |
Íslenskar orkurannsóknir (skammstafað ÍSOR) er rannsóknarstofnun sem heyrir undir iðnaðarráðuneytið. Þær vinna að verkefnum á sviði náttúrufars, orkumála og annarra auðlindamála. Þær starfa á samkeppnismarkaði og afla sér tekna með sölu á rannsóknum, ráðgjöf, þjónustu og upplýsingum. Starfsmenn eru yfir 80 talsins. Aðalskrifstofa er í Reykjavík en auk þess er rekið útibú á Akureyri.
Á Íslenskum orkurannsóknum fer fram fjölþætt starfsemi sem miðar að því að uppfylla þarfir orkuiðnaðarins fyrir grunnrannsóknir. Þar er jafnframt veitt fjölbreytt þjónusta tengd rannsóknum orkulinda og nýtingu þeirra. ÍSOR veitir líka aðilum utan orkugeirans ýmsa þjónustu á sviði jarðvísinda. Helstu þættir í þjónustu ÍSOR eru:
- Jarðhitarannsóknir
- Vatnsorkurannsóknir
- Hafsbotnsrannsóknir
- Umhverfisrannsóknir
- Grunnvatnsathuganir
- Neysluvatnsrannsóknir
- Jarðfræðileg ráðgjöf t.d. varðandi jarðgöng
- Alhliða jarðfræðikortlagning
- Kortagerð
ÍSOR hefur með höndum jarðhitaleit og rannsóknir á jarðhitasvæðum um allt land. Rannsóknirnar fela í sér eftirtalda þætti:
- Jarðhitaleit og alhliða rannsóknir á jarðhita
- Ráðgjöf og þjónustu við boranir
- Ráðgjöf og þjónustu við eftirlit með jarðhitakerfum, rekstri þeirra og nýtingu
- Tæknilegar og hagrænar athuganir á nýjum nýtingartækifærum jarðhita
- Kennslu og þjálfun í jarðhitafræðum
Sérfræðingar ÍSOR hafa stundað rannsóknir víða um heim einkum á sviði jarðhitarannsókna og ráðgjafar.