Seinni heimsstyrjöldin
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Seinni heimsstyrjöldin eða heimsstyrjöldin síðari var útbreidd styrjöld, sem hófst í Evrópu, en breiddist síðan út til annarra heimsálfa og stóð í tæp 6 ár. Meirihluti þjóða heims kom að henni með einhverjum hætti og var barist á vígvöllum víða um heim. Talið er að um 62 milljónir manna hafi fallið (sem á þeim tíma var 2,5% alls mannkyns) og að mun fleiri hafi særst og er hún mannskæðasta styrjöld mannkynssögunnar.
Stríðið var háð á milli tveggja ríkjahópa. Annars vegar var um að ræða bandalag Bandaríkjanna, Breska samveldisins, Kína, Sovétríkjanna (eftir 1941) auk útlægrar ríkisstjórnar Frakklands og fjölda annarra ríkja sem gekk undir nafninu Bandamenn; hins vegar var bandalag Ítalíu, Japans og Þýskalands auk fleiri ríkja, sem gekk undir nafninu Öxulveldin eða Möndulveldin.
Mest var barist í Evrópu og Austur-Asíu og á Kyrrahafi.
Stríðið hófst í Evrópu með innrás Þjóðverja í Pólland þann 1. september 1939 en Bretar og Frakkar lýstu yfir stríði á hendur Þjóðverjum tveimur dögum síðar. Stríðið hófst fyrr í Asíu og er þá ýmist miðað við innrás Japana í Kína árið 1937 eða jafnvel innrás þeirra í Mansjúríu 1931. Í Evrópu lauk stríðinu með uppgjöf Þjóðverja 8. maí 1945 en stríðið hélt áfram í Asíu þar til Japanir gáfust upp 15. ágúst 1945 eftir að Bandaríkin höfðu varpað tveimur kjarnorkusprengjum á borgirnar Híroshima og Nagasakí. Japanir gáfust formlega upp þann 2. september sama ár.
Efnisyfirlit |
[breyta] Aðdragandi
Þær skýringar sem helst eru gefnar á upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar eru aukin þjóðernishyggja, herframleiðsla og óleystar landamæradeilur. Fasískar hreyfingar komust til valda á Ítalíu, Spáni, Portúgal og Þýskalandi í þeim efnahagslega óstöðugleika og kreppu sem einkenndi 3ja og 4ða áratuginn. Í Þýskalandi spilaði Versalasamningurinn stórt hlutverk, sérstaklega grein 231 (svokölluð sektarklausa) og það þrátt fyrir að samningnum væri ekki fylgt stíft eftir vegna hræðslu um annað stríð. Bretar og Frakkar reyndu að gera ekkert sem þeir gátu til að styggja ekki stjórnvöld í Þýskalandi, þar sem Adolf Hitler og Nasistaflokkur hans hafði komist til valda árið 1933. Sú hræðsla er þvert á móti talin hafa átt þátt í því að Nasistaflokkurinn varð jafn valdamikill og raunin varð. Samningur Sovétríkjanna við Þýskaland, Molotov-Ribbentrop samkomulagið, tryggði Þjóðverjum að Sovétmenn réðust ekki á þá ef þeir tækju Pólland.
Á 4ða áratugnum var Japan stjórnað af hernaðarklíku sem hafði það að markmiði að gera landið að heimsveldi. Árið 1937 réðist Japan inn í Kína til að auka við magrar náttúruauðlindir sínar. Bandaríkjamenn og Bretar brugðust við með því að veita Kínverjum lán og setja efnahagsþvinganir á Japani sem hefðu á endanum neytt landið til að draga sig úr Kína vegna skorts á eldsneyti. Japanir brugðust við með því að ráðast á Perluhöfn og draga Bandaríkjamenn þannig inn í stríðið. Markmið Japana með árásinni var að sigra Austur-Indíur og tryggja sér þannig olíu.
[breyta] Stríðið brýst út í Evrópu: 1939
[breyta] Hernaðarbandalög og friðþæging
Helsta stefna Þjóðverja fyrir stríðið var „Lebensraum“, lífsrými, stefna sem fólst í því að skapa Þjóðverjum nýtt rými á kostnað Austur-Evrópubúa. Til þess að réttlæta þessa kröfu um aukið land í austri, kom Þýskaland á framfæri áhyggjum sínum meðferð á Þjóðverjum sem bjuggu í Austur-Evrópu og voru þessar kröfur háværastar í tengslum við Pólland og Tékkóslavakíu.
Ríkisstjórnir Bretlands og Frakklands reyndu að stilla til friðar fyrir stríðið til að reyna að koma í veg fyrir að nýtt stríð brytist út í Evrópu, enda efuðust báðar ríkisstjórnir um að landsmenn sínir væru tilbúnir í nýtt stríð eftir hið herfilega mannfall í fyrri heimsstyrjöldinni. Þessi friðþæging sást einna best á Munchen-samkomulaginu sem gert var við Þjóðverja og gerði þeim það kleift að hernema og innlima svæði Tékkóslóvakíu þar sem þýskumælandi voru í meirihluta. Forsætisráðherra Breta, Chamberlain, lét falla fræg orð eftir undirritun samkomulagsins um að hann hefði tryggt “frið um vora daga”. Í mars 1939 réðust Þjóðverjar svo inn í restina af Tékkóslóvakíu og hernumdu það. Innan við ári eftir að Munchen-samkomulagið var undirritað höfðu bæði Bretar og Frakkar lýst yfir stríði á hendur Þjóðverjum.
Brot Þjóðverja á samkomulaginu sýndu jafnframt fram á að ekki var hægt að treysta Hitler og í kjölfarið gerðu Frakkar og Pólverjar með sér samkomulag þann 19. mars um að koma hvor öðrum til aðstoðar yrði ráðist á aðra hvora þjóðina. Bretar höfðu þá þegar boðist til að koma Pólverjum til aðstoðar yrði á þá ráðist.
Þann 23. ágúst 1939 gerðu Þjóðverjar og Sovétmenn með sér samkomulag, nefnt Molotov-Ribbentrop samkomulagið (eftir utanríkisráðherrum beggja landa) og þar sem þjóðirnar ákváðu að skipta með sér Evrópu. Í samkomulaginu var einnig kveðið á um sölu olíu og matar Sovétmanna til Þjóðverja. Markmið Þjóðverja var að koma í veg fyrir matarskort ef Bretar settu á þá hafnarbann, líkt og hafði gerst í fyrri heimsstyrjöldinni.
Eftir að samkomulagið var gert gat Hitler óhræddur ráðist á Pólland. Tylliástæða hans var að Þýskaland átti óleyst mál við Pólland tengd borginni Danzig auk landssvæðis við Visdula ána. Markmið hans var hins vegar að hernema stóran hluta af Póllandi og innlima hann í Þýskaland. Undirritun sáttmála milli Bretlands og Póllands þann 25. ágúst 1939 breytti engu um þær fyrirætlanir.
[breyta] Þjóðverjar og Sovétmenn ráðast inn í Pólland
Þann 1. september 1939 réðust Þjóðverjar inn í Pólland eftir að hafa sett á svið árás á þýska landamærastöð.
Þann 3. september lýstu Bretar og Frakkar yfir stríði á hendur Þjóðverjum. Kanada, Ástralía og Nýja-Sjáland fylgdu svo fljótlega í kjölfarið.
Franski herinn var hægur og gerði svo aðeins sýndarárás og dró sig í hlé. Bretar gátu hins vegar ekki aðstoðað Pólverja á þeim stutta tíma sem þeir höfðu. Pólski herinn var lítil fyrirstaða fyrir þann þýska sem náði þann 8. september til höfuðborgar Póllands, Varsjár.
Þann 17. september, og í samræmi við samkomulag sitt við Þjóðverja, réðist Sovéski herinn á Pólland úr austri og opnaði þannig nýjar vígstöðvar. Degi síðar flúði forseti Póllands til Rúmeníu. Eftir tæpt mánaðar umsátur, þann 1. október, þrammaði þýski herinn inn í Varsjá og sex dögum síðar gáfust síðustu pólsku hermennirnir upp. Opinberlega gafst Pólland þó aldrei upp fyrir Þjóðverjum.
[breyta] Baráttan um Atlantshafið
Veturinn 1939-1940 réðust þýskir kafbátar endurtekið á skip bandamanna. Á fyrstu fjórum mánuðum stríðsins náðu þeir að sökkva 110 skipum. Eftir 1943 dró verulega úr sigrum Þjóðverja á hafi þar sem bandamenn náðu að smíða skip hraðar en Þjóðverjar sökktu þeim auk þess sem skip tóku að sigla saman í skipalestum. Árangur bandamanna gegn þýskum kafbátum merkti að meðal líftími kafbátahermanna Þjóðverja á sjó var mældur í mánuðum. Undir lok styrjaldarinnar kynntu Þjóðverjar til sögunnar nýjan kafbát, af gerð 21, en það reyndist of seint til að hafa áhrif á stríðsrekstur þeirra.
Í Suður-Atlantshafi náði þýska herskipið Graf Spee að sökkva níu breskum kaupskipum. Skipið var elt af bresku beitiskipunum HMS Ajax, HMS Exeter og HMNZS Achilles og leitaði það ásjár í höfninni Montevídeó. Í stað þess að snúa aftur í bardaga ákvað skipstjóri þess, Langsdorff, að sökkva í því rétt utan við höfnina.
[breyta] Tenglar
- Vísindavefurinn: „Hvað gerðist í heimsstyrjöldinni síðari í grófum dráttum?“
- Vísindavefurinn: „Hvað gerðist í Perluhöfn (Pearl Harbor) í seinni heimsstyrjöldinni?“
- Vísindavefurinn: „Hvað getið þið sagt mér um orrustuna við Midway?“
- Vísindavefurinn: „Getið þið sagt mér frá baráttunni um El Alamein?“
- Vísindavefurinn: „Hvað vitið þið um innrásina í Stalíngrad?“
- Vísindavefurinn: „Hvernig kom Leníngrad við sögu í seinni heimsstyrjöldinni?“
- Vísindavefurinn: „Hvað getið þið sagt mér innrásina í Normandí?“
- Vísindavefurinn: „Hvað gerði andspyrnuhreyfingin í seinni heimsstyrjöldinni?“
- Vísindavefurinn: „Hvaða tilgangi þjónaði loftárás Bandamanna á Dresden í seinni heimsstyrjöld (sem olli dauða fleira fólks en dó í Hiroshima)?“
- Vísindavefurinn: „Hvernig töpuðu Þjóðverjar seinni heimsstyrjöldinni?“
- Vísindavefurinn: „Voru útrýmingarbúðir nasista í seinni heimsstyrjöldinni allar utan Þýskalands?“
Seinni heimsstyrjöldin | |||||
---|---|---|---|---|---|
Vestur-Evrópa · Austur-Evrópa · Norður-Afríka · Miðjarðarhafið · Asía og Kyrrahafið · Atlantshafið |
|||||
Helstu þátttakendur |
Tímaás |
Ýmislegt |
|||
|
Aðdragandi 1937 1939 1940 1941 1942 |
1943 1944 1945 • Ýmsar orrustur Eftirmáli og afleiðingar |
• Andpyrnuhreyfingar Stríðsglæpir og áhrif á óbreytta borgara |
||
Bandamenn | Öxulveldin | ||||
Stríðandi þjóðir 1937 Hófu þátttöku í stríðinu 1939 |
Hófu þátttöku í stríðinu 1941 Hófu þátttöku í stríðinu 1943 |
Stríðandi þjóðir 1937 Hófu þátttöku í stríðinu 1940 Hófu þátttöku í stríðinu 1941 Hófu þátttöku í stríðinu 1942 Hófu þátttöku í stríðinu 1943 • Aðrar þjóðir |
|||
• Leiðtogar bandamanna |
|||||
Andspyrnuhreyfingar
Andspyrnuhreyfing gyðinga · á Grikklandi · á Ítalíu · í Austurríki · í Bessarabíu · í Denmörku · í Eystrasaltslöndunum · í Eþíópíu · í Frakklandi · Í Hollandi · í Júgóslavíu · í Noregi · í Póllandi · í Slóvakíu · í Tékklandi · í Tælandi · í Úkraínu · í Víetnam · í Þýskalandi · Aðrar andspyrnuhreyfingar |
|||||
Listar | |||||
Flokkur · viðfangsefni |